Tollfríðindi fyrir fátækustu ríki heims nái til allra vara

24.05.2018
Bóndi í Bangladess. Mynd: Sameinuðu þjóðirnar/Kibae Park

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um að vanþróuðustu ríki heims, svokölluð LDC-ríki, njóti sérstakra tollfríðinda á Íslandi. Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpinu í umsögn til Alþingis, en leggur til að tollfríðindin nái til allra vara, undantekningarlaust. Í frumvarpi ráðherra er lagt til að mjólkur- og kjötvörur og afskorin blóm verði undanskilin tollfríðindunum.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að samþykkt frumvarpsins sé nauðsynleg til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Lagt er til að felldir verði niður tollar af öllum vörum frá vanþróuðustu ríkjum heims, þó með þeirri undantekningu að óunnar og unnar kjötafurðir, mjólkurvörur og afskorin blóm falla ekki undir tollfríðindin. Þetta eru samkvæmt greinargerðinni þær vörur sem „teljast hvað viðkvæmastar hagsmunum innlendra framleiðenda landbúnaðarvöru“ og verði vernd þeirra ekki skert með frumvarpinu.

Í umsögn FA segir að félagið styðji eindregið öll skref sem stigin eru í átt til aukinnar fríverzlunar og telji því frumvarpið af hinu góða. „FA er þeirrar skoðunar að afnám tolla og annarra viðskiptahindrana sé ein skilvirkasta leið ríkra, vestrænna ríkja á borð við Ísland til að styðja við þróun og efnahag fátækustu ríkja heimsins, svokallaðra LDC-ríkja. Frjáls viðskipti eru mikilvæg leið til að hjálpa vanþróuðum ríkjum til sjálfshjálpar,“ segir í umsögninni.

Félagið lýsir hins vegar furðu sinni á því að áðurnefndir vöruflokkar séu undanþegnir tollfríðindunum. „FA bendir á að útflutningur fátækustu ríkja heims á þessum vörum er ekki af þeirri stærðargráðu að það geti talizt nokkur einasta ógn við íslenzkan landbúnað. Félagið bendir ennfremur á að innflutningur mjólkur- og kjötvara frá þessum ríkjum yrði ekki leyfður nema viðkomandi afurðastöðvar hefðu staðizt heilbrigðis- og matvælaeftirlit og fengið vottun vegna útflutnings til ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Engin ástæða er fyrir ríkulega ríkisstyrktan íslenzkan landbúnað að óttast samkeppni frá bláfátækum ríkjum þar sem opinber stuðningur við landbúnað er lítill eða enginn. Mikilvægi þess að vinna gegn fátækt og neyð ætti að ganga framar mögulegum – og takmörkuðum – fjárhagslegum hagsmunum innlendra framleiðenda þessara vara,“ segir í umsögn FA.

Félag atvinnurekenda leggur því til að frumvarpið verði samþykkt, með þeirri breytingu að allur innflutningur frá LCD-ríkjunum verði tollfrjáls, án undantekninga.

Umsögn FA um frumvarpið

 

Nýjar fréttir

Innskráning