Tollkvóti fyrir búvörur frá ESB framlengdur

04.04.2022
Kjúklingakjöt er á meðal þeirra vara sem snúnara er að útvega eftir að stríðið í Úkraínu skall á.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur brugðist við erindi frá Félagi atvinnurekenda og framlengt um tvo mánuði tímabil til ráðstöfunar tollkvóta vegna innfluttra landbúnaðarvara frá ríkjum Evrópusambandsins vegna þess ástands sem nú ríkir á matvælamörkuðum í Evrópu. Þau tímabil sem hefðu runnið út 30. apríl næstkomandi verða þannig framlengd til 30. júní.

Innflutningsfyrirtæki, sem hafa átt í erfiðleikum með að finna vörur upp í tollkvóta sem þau höfðu greitt fyrir, sendu matvælaráðuneytinu beiðni um framlengingu á tollkvótanum en fengu synjun. FA sendi matvælaráðuneytinu þá erindi og benti á að það hefði reynst snúnara að útvega ýmsar matvörur eftir að stríðið í Úkraínu skall á. Þrátt fyrir að ekki væri beinlínis skortur á vörum þyrftu innflutningsfyrirtæki að hafa meira fyrir því að útvega vörur á hagkvæmu verði.  Félagið vísaði einnig til þess að ef ekki yrði unnt að nýta tollkvótann þá leiddi það til lægri birgðastöðu auk þess sem verð á vörum myndi væntanlega hækka en hvorugt væri í þágu fæðuöryggis.

„Við fögnum eindregið þessari ákvörðun ráðherra,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Við þær aðstæður sem nú eru uppi er full ástæða til að huga að fæðuöryggi þjóðarinnar. Það tekur ekki síður til innfluttra matvara en innlendrar framleiðslu.“

Fréttatilkynning matvælaráðuneytisins

Reglugerð ráðherra um framlenginguna

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning