Tollstjóri svarar: Skilvirkara verklag við förgun áfengis

26.02.2016

afengisforgunTollstjóraembættið hefur svarað erindi Félags atvinnurekenda varðandi tjón fyrirtækja vegna seinagangs embættisins við förgun á áfengi. Tollstjóri hyggst taka upp nýtt verklag, sem á að auka skilvirkni við förgun tollafgreiddrar vöru.

Miklar tafir á að tollstjóraembættið sinni eftirliti með förgun áfengis hafa leitt til þess að fyrirtæki fá ekki endurgreitt áfengisgjald og verða fyrir tjóni vegna fjárbindingar, geymslukostnaðar og sekta frá erlendum birgjum af því að margnota umbúðum er ekki skilað.

Biðin getur orðið lengri en ár
Í svari Tollstjóra er viðurkennt að biðtími beiðna um að tollverðir séu viðstaddir förgun áfengis geti orðið lengri en ár. Hins vegar er talið að þau dæmi sem FA hefur nefnt um að fyrirtæki geti þurft að bíða í allt að fjórum árum séu vegna mistaka, ss. misbrests í skráningu beiðna eða framkvæmdar förgunar.

Tollstjóri hyggst jafnframt árétta skilyrði til endurgreiðslu áfengisgjalds við forsvarsmenn tollvörugeymslna, sem alla jafna sjái um beiðni um förgun á tollafgreiddu áfengi.

„Vegna vinnu við breytt verklag hefur verið lagt til að tollverðir hafi fasta viðveru, ef þurfa þykir, hjá stærstu tollvörugeymslum landsins á fyrirframákveðnum tíma, svo förgun vöru verði framkvæmd með skilvirkum hætti,“ segir í svarbréfi Tollstjóra. Með þessari breytingu munu tollverðir hafa fasta viðveru á viðurkenndum förgunarstað og jafnframt upplýsa rekstraraðila tollvörugeymslna sem alla jafna eru beiðendur förgunar um skipulag framkvæmdar. Það er von Tollstjóra að breytt verklag muni auka skilvirkni til hagsbóta fyrir félagsmenn í Félagi atvinnurekenda og förgunartími verði ásættanlegur fyrir alla aðila.“

„Við fögnum þessum viðbrögðum Tollstjóraembættisins,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Það er sjálfsagt mál að embættið sýni sömu skilvirkni þegar á að endurgreiða opinber gjöld eins og þegar verið er að innheimta þau. Við vonum að þetta nýja verklag reynist vel.“

Svarbréf Tollstjóra

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning