Tollur á æðardúni og humri í Kína

19.11.2014
Mynd: Sigurður Ægisson
Mynd: Sigurður Ægisson

Tollfrelsi, sem samið var um í fríverzlunarsamningi Íslands og Kína, nær ekki yfir dúnsængur, að því er fram kemur í frétt í Morgunblaðinu í dag. Þá hafa koið upp hnökrar á framkvæmd samningsins hvað varðar útflutning á sumum fisktegundum til Kína. Þessi mál voru á meðal þeirra sem bar á góma á vel sóttum vinnufundi Íslenzk-kínverska viðskiptaráðsins með fulltrúa Tollstjóra í síðustu viku.

 

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Elías Gíslasyni, eiganda EG heildverzlunar, að hann skilji ekki hvers vegna vara á borð við dúnsængur njóti ekki tollfríðinda samkvæmt samningnum. Þær upplýsingar hafi fengizt frá utanríkisráðuneytinu að tollur á æðardúni hafi ekki verið felldur niður að beiðni kínverskra stjórnvalda. Í samningaviðræðunum hafi íslenzk stjórnvöld lagt áherzlu á að viðhalda tollvernd fyrir landbúnaðarvörur en Kínverjar fyrir iðnaðarvöru.

 

Þá er haft eftir Guðmundi Ingasyni, fiskútflytjanda hjá G. Ingasyni, að sumar fisktegundir njóti enn ekki tollfríðinda í Kína þrátt fyrir að tilgreint sé í samningnum að svo eigi að vera. Hann nefnir eldislax, bleikju, regnbogasilung, humar og langlúru.

 

„Það vantar meiri samræmingu á milli embættismanna, Matvælastofnunar, utanríkisráðuneytisins og tollsins,“ segir Guðmundur í Morgunblaðinu. „Það er ekki nóg að þetta sé tilgreint í samningnum heldur þarf viðskiptafulltrúi í sendiráðinu í Kína einnig að samþykkja tegundirnar og það hefur hann ekki ennþá gert.“

 

Guðmundur segir hættu á að fyrirtæki lendi í því að vara stoppi í Kína og hana þurfi að flytja að nýju til Íslands.

 

Stutt frétt um málið á mbl.is.

Nýjar fréttir

Innskráning