Truflanir á innflutningi vegna verkfalls SFR: Matur, barnamjólk og sprautunálar föst í tolli

20.10.2015

Gámar minni 2Talsverð brögð eru að því að matur og aðrar nauðsynjavörur fáist ekki tollafgreiddar vegna verkfalls SFR. Tollstjóri hafði gefið það út áður en til verkfalls kom að það myndi ekki hafa áhrif á tollafgreiðslu skipa og flugvéla, en annað virðist koma á daginn.

Félagi atvinnurekenda er kunnugt um að farmskrár frá flutningafélögum lesist í mörgum tilvikum ekki sjálfkrafa rafrænt inn í kerfi Tollstjóra. Enginn sinnir slíkum uppákomum í verkfallinu og fást þá viðkomandi vörur ekki tollafgreiddar. Ennfremur kemur í ljós að svokallaðar safnsendingar, sem flutningafyrirtæki flytja inn í eigin nafni fyrir nokkra viðskiptavini, stoppa í tollinum vegna þess að ekki er hægt að skipta þeim upp þannig að hver innflytjandi fyrir sig geti leyst út sínar vörur.

Innflytjendur heilbrigðisvara á borð við sprautunálar og sprautur, sem notaðar eru á sjúkrahúsum, hafa sótt um undanþágur til undanþágunefndar SFR, en þær hafa enn ekki fengist afgreiddar. Er Landspítalinn þó til dæmis í brýnni þörf fyrir að vörurnar fáist afhentar. Innflytjendur kvarta undan því að ferli undanþágubeiðna sé óskýrt, ólíkt því sem gerðist í verkfalli BHM-félaga hjá Matvælastofnun fyrr á árinu.

Þá hefur tímabundið verkfall SFR-fólks hjá Matvælastofnun haft áhrif; þurrmjólk fyrir ungabörn fékkst til dæmis ekki tollafgreidd vegna þess að starfsmaður sem skrifar upp á heilbrigðisvottorð fyrir vöruna er í verkfalli.

„Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem alvarlegar truflanir verða á innflutningi vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Því miður stefnir í skort á ýmsum nauðsynjavörum dragist verkfallið á langinn,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Eins og í verkfalli BHM beinum við þeim tilmælum til forstöðumanna og stjórnenda ríkisstofnana, sem ekki eru í verkfalli, að þeir sinni skyldum sínum og takmarki það tjón sem af verkfallinu leiðir. Þeir hafa heimild til að ganga í störf undirmanna samkvæmt skýrum fordæmum í íslenskum vinnurétti og geta þannig bjargað verðmætum og afstýrt fjárhagstjóni umfram það sem óumflýjanlega fylgir verkfalli.“

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning