„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 9. ágúst 2018.
Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað mikið viðskiptastríð sem mun fyrirsjáanlega og óhjákvæmilega skaða stórlega öll þróuð hagkerfi. Svartara útlit er í heimsviðskiptum en marga undanfarna áratugi. Allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur þróunin verið hægt og bítandi í átt til aukins frjálsræðis í milliríkjaverzlun. Verndarstefna áranna milli stríða var víti til að varast. Margt bendir til að ráðandi öfl vestan hafs séu búin að gleyma því.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði því í síðasta mánuði að verndarstefna Trumps myndi valda samdrætti í hagvexti á heimsvísu upp á hálft prósentustig fram til ársins 2020, sem samsvarar 430 milljörðum dollara. Tollar Trumps hitta jafnvel fyrir geira sem hann segist vilja vernda; þannig tapa bandarískir bændur á hærra stálverði og tollum sem eru settir á útflutningsvörur þeirra sem svar við viðskiptahindrunum Trumps.
Sem lítið, opið hagkerfi sem er mjög háð milliríkjaverzlun á Ísland ríka hagsmuni af að alþjóðaviðskipti séu sem frjálsust, fylgi viðurkenndu regluverki og að viðskiptadeilur séu leystar á vettvangi þar til bærra stofnana. Stefna Trumps gengur því gegn íslenzkum hagsmunum, bæði beint og óbeint.
Hvað getur lítið ríki eins og Ísland gert til að bregðast við slíkri ógn?
Það getur í fyrsta lagi skipað sér í sveit með Evrópu- og Asíuríkjum, sem fylkja sér nú um Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, og stefna að því að endursemja regluverk hennar og leitast við að leysa deilur um t.d. offramleiðslu Kínverja á stáli og brot á hugverkarétti á vettvangi stofnunarinnar, en ekki utan hennar.
Í öðru lagi ætti Ísland að vera heilt í stuðningi sínum við frjáls milliríkjaviðskipti í stað þess að nota trumpísk rök fyrir því að vernda einstaka atvinnugreinar fyrir alþjóðlegri samkeppni. Þeir sem eru samkvæmir sjálfum sér eru nefnilega trúverðugir í málflutningi sínum. Tækifærissinnarnir eru það síður.