Tuga prósenta tollvernd á „tollfrjálsum“ innflutningi

07.01.2016

b0d8e8f5906e3f4dÍslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að hleypa tilteknu magni af búvörum tollfrjálst inn í landið samkvæmt samningi við Evrópusambandið frá 2007. Staðreyndin er hins vegar sú að raunveruleg tollvernd á þessum vörum getur numið tugum prósenta af innflutningsverði. Ástæðan er útboðskerfið, sem stjórnvöld nota til að úthluta innflutningsheimildunum, en þær eru seldar hæstbjóðanda.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, bendir á það í grein í Viðskiptablaðinu í dag, að útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða til að fá að flytja inn „tollfrjálsu“ vörurnar, fer stöðugt hækkandi á milli ára. Þannig hækkaði útboðsgjaldið fyrir hvert kíló af svínakjöti um 21%. Það mun að öllum líkindum þýða að raunveruleg tollvernd á svínakjötinu, sem átti að flytja inn tollfrjálst frá ESB, verður um 30% af innflutningsverði á árinu.

Í tilviki alifuglakjöts er útboðsgjaldið orðið svo hátt að það kostar álíka mikið að flytja inn til dæmis kjúkling frá ESB á „tollfrjálsa“ kvótanum og á almennum tolli. Í báðum tilvikum er raunveruleg tollvernd um 50% af innflutningsverði.

Ólafur bendir á að í samningi Íslands og ESB frá 2007 er klausa þar sem segir að að samningsaðilar muni „gera ráðstafanir til að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“ Ólafur segir að erfitt sé að sjá hvernig útboðskerfið standist þessa grein samningsins.

Á morgun, föstudag, fer fram málflutningur í Hæstarétti í málum innflutningsfyrirtækja, sem hafa stefnt ríkinu vegna útboðsfyrirkomulagsins og krafist endurgreiðslu útboðsgjaldsins. Í grein Ólafs segir að burtséð frá því hver niðurstaðan verði í Hæstarétti hafi íslensk stjórnvöld hafa í rauninni rangt við í samskiptum sínum við Evrópusambandið. „Með annarri hendinni semja þau um tollfrelsi vöru, en með hinni úthluta þau tollfrjálsa kvótanum með aðferðum sem hafa í sumum tilvikum étið upp allan ávinning af tollfrelsinu. Þetta stenzt enga skoðun.“

Grein Ólafs Stephensen í Viðskiptablaðinu

Nýjar fréttir

Innskráning