Tugir fyrirtækja hafa verið í eigu banka í meira en 2 ár
Félag atvinnurekenda sendi formlega fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins þann 12. september vegna eignarhalds fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri en það er liður eitt í átakinu Falda aflið sem félagið stendur fyrir um þessar mundir. Af svari Fjármálaeftirlitsins má ráða að tugir fyrirtækja hafi verið í eigu fjármálafyrirtækis í meira en tvö ár þrátt fyrir að núverandi löggjöf kveði á um tólf mánaða eignarhaldstíma.
Eignarhald banka í 68 af 72 fyrirtækjum hefur varað lengur en 12 mánuði samkvæmt tölfræði Fjármálaeftirlitsins.
Af 51 fyrirtæki í söluferli eiga bankar 40-100% eignarhlut, eða ráðandi eignarhlut, í 30 þeirra.
Um miðbik september sendi Félag atvinnurekenda fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins vegna eignarhalds fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Eins og kunnugt er hafði efnahagshrunið víðtæk áhrif á samkeppnisumhverfi fyrirtækja en nú eru liðin fimm ár án þess að leyst hafi verið úr þeim vanda sem skapaður var með eignarhaldi fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í samkeppni.
Tugir fyrirtækja í eigu banka í meira en tvö ár
Félag atvinnurekenda vill breyta 1. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 á þann veg að tímamörk eignarhalds verði 6 mánuðir. Þegar fjármálafyrirtæki sækir svo um aukinn frest samkvæmt ákvæðinu þá þurfi að birta nafn viðkomandi fyrirtækis sem fresturinn tekur til og eignarhluta fjármálafyrirtækisins í fyrirtækinu.
Félag atvinnurekenda vill breyta 1. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 á þann veg að tímamörk eignarhalds verði 6 mánuðir. Þegar fjármálafyrirtæki sækir svo um aukinn frest samkvæmt ákvæðinu þá þurfi að birta nafn viðkomandi fyrirtækis sem fresturinn tekur til og eignarhluta fjármálafyrirtækisins í fyrirtækinu.
Fyrir þessu eru ríkar ástæður enda bendir svar Fjármálaeftirlitsins til Félags atvinnurekendafrá októberbyrjun til þess að tugir fyrirtækja hafi verið í eigu banka í meira en tvö ár samkvæmt frestveitingum Fjármálaeftirlitsins.
Röksemdir FME eiga ekki við fimm árum eftir hrun
FME nefnir sérstaklega í svari sínu til FA að þegar lögin voru sett árið 2010 hafi sérstaklega verið tekið tillit til þess að verðmæti eignar banka gæti rýrnað. Skýrt skilgreint tímamark myndi því auka líkur á að fjárfestar bíði eftir síðasta söludegi eignar til að fá hana á sem lægstu verði. Að mati FA voru þetta að hluta haldbær rök fyrir þremur árum. En það er jafn augljóst að þessi röksemd á ekki við þremur árum síðar. Það er áhugavert að FME noti orðalagið að fyrirtæki séu „neydd í sölu“ um tilvik þar sem fjármálafyrirtæki hafa haft tvö ár eða lengur til að klára söluferli.
Fjármálaeftirlitið tekur ekki tillit til samkeppnissjónarmiða
Núverandi löggjöf kveður á um tólf mánaða eignarhaldstíma. Lengri frestir eru veittir án þess að upplýsingar séu birtar opinberlega.
Fyrirtæki í eigu banka eiga í samkeppni við önnur fyrirtæki á markaði á ójöfnum grunni og skaða þannig markaðinn og hagsmuni neytenda vegna efnahagslegs styrkleika bankans sem bakhjarls.
Þá kemur ennfremur fram að áhyggjur Félags atvinnurekenda varðandi eignarhald slitastjórna fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum eiga fullan rétt á sér þar sem Fjármáleftirlitið hefur ekki eftirlit með eignarhaldi slitastjórna á fyrirtækjum. Það getur augljóslega valdið ósanngjarnri samkeppni.
Einfalt að leysa vandann að sögn Félags atvinnurekenda
Félag atvinnurekenda skorar á stjórnvöld að bregðast við þessum vanda enda er það löngu tímabært. Fyrsti liður Falda aflsins leggur til að settar verði reglur sem komi í veg fyrir skuggastjórnun fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri, að FME birti betri tölfræði og oftar og taki sérstaklega tillit til samkeppnissjónarmiða þegar ákvarðanir eru teknar varðandi fyrirtæki í samkeppni. Með því móti má stuðla að aukinni virkni og samkeppni á markaði þannig að loksins gefist tækifæri til að skjóta styrkari stoðum undir efnahag landsins.
Nánar má lesa um tillögur Falda aflsins á heimasíðu Félags atvinnurekenda, atvinnurekendur.is, en þar er í tólf liðum farið yfir tillögur sem ætlað er að bæta stöðu minni og meðalstórra fyrirtækja sem bera uppi stærstan hluta viðskiptalífsins.
Nánari upplýsingar veitir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í síma 618-2898.