Tveggja ára neyðarástand?

10.03.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 10. mars 2022.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudagskvöld var upplýst að Landspítalinn hefði keypt hlífðarfatnað fyrir starfsfólk sitt fyrir 1,6 milljarða króna á árunum 2020 og 2021. Áður hafði Heilsugæzla höfuðborgarsvæðisins upplýst, í svari við fyrirspurn Félags atvinnurekenda, að hún hefði greitt um 380 milljónir króna fyrir hraðpróf á níu mánaða tímabili, frá maí 2021 til janúar 2022.

Hvorki Landspítalinn né Heilsugæzlan buðu innkaupin út eins og lög um opinber innkaup kveða á um. Báðar stofnanir bera fyrir sig undantekningarákvæði í lögunum, um að heimilt sé að víkja frá útboði vegna neyðarástands.

FA hefur lýst skilningi á því að í upphafi faraldursins hafi ríkt slíkt ástand. En að halda því fram að neyðarástand hafi ríkt annars vegar í tvö ár samfleytt og hins vegar í níu mánuði, er í meira lagi hæpið. Markaður fyrir bæði hlífðarfatnað og hraðpróf varð stöðugri og aðstæður fyrirsjáanlegri þegar leið á faraldurinn.

Lögin um opinber innkaup gegna þríþættum mikilvægum tilgangi. Að spara fé skattgreiðenda, efla samkeppni á markaði og vinna gegn spillingu. Hvað síðastnefnda hlutverkið varðar, má benda á að í okkar litla samfélagi, þar sem allir þekkja alla eða eru skyldir þeim, er mikilvæg vörn í því fólgin fyrir fyrirtæki, sem eiga í viðskiptum við hið opinbera, að farið sé að reglunum og viðskiptin boðin út með lögformlegum hætti. Þannig forðumst við að viðskiptin séu gerð tortryggileg.

Heimildin til innkaupa án útboðs í neyðarástandi er undantekning frá meginreglu laganna um að innkaup hins opinbera á vörum og þjónustu beri að bjóða út. Slíkum undantekningum ber að beita afar varlega og sparlega. Stjórnvöld ættu að gera sérstaka úttekt á þeim ákvörðunum Landspítalans og Heilsugæzlunnar, sem hér um ræðir, til að forðast að búið sé til hættulegt fordæmi.

Nýjar fréttir

Innskráning