„Tvinnustaðurinn“ er kominn til að vera

19.04.2022

Miklar breytingar hafa orðið á vinnubrögðum og starfsháttum í heimsfaraldri kórónuveirunnar og „tvinnustaðurinn“, þar sem blandað er saman hefðbundinni viðveru starfsfólks og fjarvinnu, er kominn til að vera. Þetta var á meðal þess sem fram kom á netfyrirlestrinum „vinnustaðurinn eftir Covid“ sem Félag atvinnurekenda efndi til fyrir félagsmenn sína í morgun. 

Yfir 80% hlynnt nýjum vinnubrögðum
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, sýndi í byrjun fyrirlestrar niðurstöður úr könnun sem FA gerði meðal félagsmanna í byrjun febrúar 2021 og 2022, en þar var spurt um afstöðu til fullyrðingarinnar „Ný vinnubrögð í faraldrinum, t.d. fjarfundir og heimavinna, eru framför og komnir til að vera.“ Fyrra árið sögðust 80% svarenda sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu en seinna árið 84%. 

Fjarvinnusamningar taki á réttindamálum
Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, orðaði það svo að „tvinnustaðurinn“ væri kominn til að vera og væri raunhæfur valkostur. Ýmis samvinnu- og samskiptatól og skjölunarsvæði gerðu að verkum að fólk gæti auðveldlega unnið saman að verkefnum í fjarvinnu. Störf án staðsetningar væru auglýst í vaxandi mæli og mörg störf hentuðu vel í fjarvinnu.

Ingrid ráðlagði fyrirtækjum að gera fjarvinnusamninga við starfsmenn sem ynnu í fjarvinnu að hluta eða öllu leyti. Ástæða gæti verið til að uppfæra ráðningarsamninga til að tryggja t.d. að starfsmenn nytu sömu réttinda í fjarvinnu og staðvinnu, til að mynda niðurgreiðslu á fæðiskostnaði, tækniaðstoðar og öruggra og heilsusamlegra vinnuaðstæðna. 

Mikilvægt að móta stefnu um fjarvinnu
Ingrid vitnaði til bæði innlendra og alþjóðlegra rannsókna sem sýna fram á að starfsfólk telur sig afkasta meiru í fjarvinnu en þegar það er statt á vinnustaðnum. Þá hefur afstaða fólks í störfum, sem hægt er að vinna í fjarvinnu, gerbreyst frá því fyrir heimsfaraldur; meirihlutinn kýs nú að vinna samkvæmt tvinnfyrirkomulagi. Ingrid sagði að það væri lykilatriði fyrir fyrirtæki sem vildu halda í hæft starfsfólk að styðja sveigjanlegt fyrirkomulag í þessum efnum. 

Að mati Ingridar fylgja bæði kostir og ókostir fjarvinnu, bæði fyrir starfsfólk og vinnuveitendur. Mikilvægt væri fyrir vinnustaði að mynda sér stefnu um fjarvinnu og fræða starfsfólk um góða starfshætti og aðbúnað. 

Þarf skýrar línur um verklag og væntingar
Eyþór Eðvarðsson, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, ræddi um fjarvinnu og tvinnfyrirkomulag út frá sjónarhóli stjórnenda. Hann sagði að hverfa þyrfti frá því að mæla tímaeiningar hjá starfsfólki og mæla frammistöðu þess í stað. Til þess að það væri hægt væri mikilvægt að skýrar línur væru um verklag og væntingar stjórnanda til starfsmannsins. Þegar hin óformlegu samskipti, sem leika oft stórt hlutverk á vinnustöðum, dyttu út þyrfti að stóla á aðrar aðferðir fyrir endurgjöf og til að efla liðsheildina. Allir þyrftu að vera fókuseraðir á að mótun nýrra vinnubragða væru lærdómsferli, þar sem væri leyfilegt að gera mistök og læra af þeim. 

Eyþór sagði að mikilvægt væri að stjórnendur og starfsfólk hefðu sameiginlega sýn á hvernig samskiptin ættu að vera og það gæti verið góð hugmynd að stilla upp reglum, sáttmála eða stefnu um það.

Félagsmenn FA geta nálgast slóð á upptöku af fyrirlestrinum hjá skrifstofu félagsins. 

 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning