Tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda verði fest í sessi

03.03.2021

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi og hvatt hann til að beita sér fyrir því að heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli verði hið minnsta framlengd út árið, en helst fest í sessi til frambúðar.

Vitnar FA til erindis síns til ráðherra fyrir tæpu ári, í upphafi kórónuveirukreppunnar, þar sem ráðherra var hvattur, í ljósi fordæmalausra aðstæðna vegna heimsfaraldursins, til að flytja þingmál um að endurvekja heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli. Sú skipan hafði verið við lýði með endurteknum bráðabirgðaákvæðum í tollalögum og lögum um virðisaukaskatt á árunum 2008-2016.

Ráðherra brást vel við hvatningu FA og voru ákvæði þessa efnis hluti frumvarps til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (683. mál á 150. löggjafarþingi), sem varð að lögum nr. 25/2020. Um er að ræða bráðabirgðaákvæði XVII við tollalög og bráðabirgðaákvæði XXXV við lög um virðisaukaskatt. Fyrirkomulagið gilti út árið 2020.

„Í ljósi þess að ekki sér fyrir endann á heimsfaraldrinum, margvíslegum erfiðleikum fyrirtækja vegna faraldursins og ýmsum aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtækin og örva atvinnulífið, fer FA þess á leit við ráðherra að hann beiti sér fyrir því að umrædd heimild verði framlengd á ný, hið minnsta út árið 2021,“ segir í erindi FA. Félagið færir ennfremur rök fyrir því að festa ætti heimildina varanlega í sessi, enda hafi fjárlagaskrifstofa ráðuneytisins ítrekað gefið út það álit að heimildin hafi hvorki áhrif á tekjur né kostnað ríkissjóðs og að skil gjalda batni jafnvel með þessu fyrirkomulagi.

„Fyrir fyrirtækin, sérstaklega þau smærri, skiptir þessi heimild hins vegar miklu máli, óháð tímabundnum erfiðleikum vegna faraldursins. Innflutningsfyrirtæki selja vörur sínar iðulega með greiðslufresti sem er lengri en gjaldfrestur aðflutningsgjalda. Þetta skapar óhagræði og vandkvæði í fjárstreymi, sérstaklega hjá minni fyrirtækjum. Þau selja gjarnan vörur til stærri og sterkari aðila, t.d. stórrar verzlanakeðju eða Landspítalans svo dæmi séu tekin. Vegna aðstöðumunar hafa þau í raun ekki stjórn á þeim greiðslufresti sem þau verða að veita. Heimild til að skipta greiðslunum upp er því til sérstaks hagræðis fyrir minni fyrirtæki,“ segir í erindi FA til fjármálaráðherra.

Bréf FA til fjármálaráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning