Týndi fjársjóðurinn – Félagsfundur um tækifæri í breytingum á örorkulífeyriskerfinu

15.01.2025

Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar á Teams 21. janúar kl. 10 til kynningar á tækifærum sem felast í breytingum á örorkulífeyriskerfinu, sem skapa hvata til fjölgunar hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Fulltrúar Vinnumálastofnunar og Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ) munu kynna breytingarnar og þau tækifæri sem í þeim felast.

Haustið 2025 taka gildi breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér nýja hugsun sem ætlað er að leiði af sér meiri hvata til atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Aukin atvinnuþátttaka þessa hóps kallar á fjölgun hlutastarfa á vinnumarkaði. 

Með tilkomu breytinganna á örorkulífeyriskerfinu er gert ráð fyrir því að fleira fólk, sem býr yfir sérfræðiþekkingu en hefur vegna slysa eða sjúkdóma horfið af vinnumarkaði og misst hluta af starfsgetu sinni, leiti aftur út á vinnumarkaðinn. Til þess að mæta þeim breytingum er brýnt að fjölga hlutastörfum á vinnumarkaði, enda fela breytingarnar í sér gagnkvæm tækifæri fyrir atvinnurekendur og launþega.

Frummælendur á fundinum verða Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, Gunnar Alexander Ólafsson hagfræðingur ÖBÍ og Sunna Elvíra Þorkelsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ.

Fjallað verður um hvernig atvinnurekendur, sem vilja ráða fólk með skerta starfsgetu í hlutastörf, geta aflað sér upplýsinga á vef ÖBÍ. Sunna Elvíra segir frá þeim fjársjóði sem felst í fólki sem býr yfir mikilvægri þekkingu og hæfni en hefur verið utan vinnumarkaðar. Hún talar þar m.a. út frá eigin reynslu.

Sagt verður frá Unndísi, sem er verkfæri/leiðarvísir með innbyggðu matskerfi sem styður við innleiðingu á inngildandi vinnustaðamenningu að teknu tilliti til fólks með mismikla starfsgetu og á sér fyrirmynd hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna (UNDIS – United Nations Disability Inclusion Strategy). Markmið Unndísar er að styðja með afgerandi hætti við fyrirtæki með ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgd svo fjölgun hlutastarfa verði að veruleika.

Skráning á fundinn er hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá sendan hlekk til þátttöku með góðum fyrirvara.

Skráning á félagsfund á Teams til kynningar á tækifærum í breyttu örorkulífeyriskerfi

Nýjar fréttir

Innskráning