Umboðsmaður spyr um kostnaðargrunn eftirlitsgjalds á rafrettur

02.04.2019

Umboðsmaður Alþingis hefur krafið heilbrigðisráðuneytið svara um kostnaðargrunn 75.000 króna eftirlitsgjalds, sem lagt er á hverja tilkynningu til Neytendastofu vegna markaðssetningar rafrettna og tengdra vara. Félag atvinnurekenda kvartaði við umboðsmann vegna fjárhæðar gjaldsins og málsmeðferðar ráðuneytisins í desember síðastliðnum. Að mati félagsins er gjaldtakan mjög íþyngjandi fyrir innflytjendur rafrettna og tengdra vara og felst í henni ólögmæt skattheimta.

Í erindi umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins er óskað upplýsinga um hvaða kostnaðarliðir liggi gjaldinu til grundvallar og að ráðuneytið skýri hvernig þeir standi „í nánum og beinum efnislegum tengslum við veitingu þeirrar sérstöku þjónustu sem því er ætlað að standa undir.“ Umboðsmaður krefst kostnaðarútreikninga og minnir á að ákvörðun fjárhæðar þjónustugjalda verði að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldheimildin nær til.

Kostnaðargreiningin kom eftir á
Reglugerðin sem gjaldið byggist á, var staðfest 31. ágúst síðastliðinn og tók gildi daginn eftir. Eftir að FA hafði gert athugasemdir við fjárhæð gjaldsins og vinnubrögð ráðuneytisins og krafist rökstuðnings fyrir fjárhæð gjaldsins, barst félaginu kostnaðargreining Neytendastofu vegna gjaldsins, en hún var ekki dagsett fyrr en 4. febrúar 2019.

Í erindi umboðsmanns segir: „Af bréfaskiptum ráðuneytisins við Félag atvinnurekenda […] fæ ég ekki betur séð en að kostnaðargreining vegna gjaldsins hafi verið unnin af hálfu Neytendastofu. Þess er óskað að heilbrigðisráðuneytið veiti mér upplýsingar um hvort og þá hvaða upplýsingar um kostnað einstakra rekstrarþátta hafi legið fyrir í ráðuneytinu þegar reglugerð nr. 803/2018 var staðfest. Hafi ráðuneytið ekki haft undir höndum upplýsingar um kostnað einstakra rekstrarþátta og útreikninga þá sem lágu til grundvallar tillögum Neytendastofu óska ég afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig ráðuneytið telji sig hafa reist ákvörðun sína með að staðfesta fjárhæð gjaldsins með setningu reglugerðar nr. 803/2018 á fullnægjandi grundvelli og almennum reglum stjórnsýsluréttar um gjaldtöku hins opinbera.“

 

Erindi umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning