Umræður um afnám tollverndar á þingi

05.12.2014

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðum á Alþingi í vikunni að ekki yrði umflúið í náinni framtíð að skoða afnám tolla á búvörum, sérstaklega þeim sem takmarkað framboð væri af á Íslandi.

 

Willum svaraði spurningu Jóns Þórs Ólafssonar þingmanns pírata, sem spurði hvort þingmaðurinn væri tilbúinn að hugsa um afnám tolla á innfluttum landbúnaðarvörum. „Já, alla daga, og sérstaklega á þeim vöruflokkum sem takmarkað framboð er af hér á landi. Við getum ekki vikist undan því í náinni framtíð að skoða það.“

 

Á að hugsa um hag neytenda

 

Í framhaldinu sagðist Willum bíða spenntur eftir skýrslu sem landbúnaðarráðherra hefði boðað að kæmi inn í þingið um tollamál og málefni landbúnaðarins. „Ég er ekki í vafa um og ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi matvælaframleiðslu til framtíðar. Við þekkjum öll það mikilvægi og mikilvægi landbúnaðarins í þeim efnum. En við eigum auðvitað að hugsa um hag neytenda samhliða og tollar á ýmsar kjötvörur, þar sem framboð er takmarkað, við eigum ekki að hika við það.“

 

Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði að í ræðu Willums hefði kveðið við nýjan tón. „Háttvirtur þingmaður Willum Þór Þórsson sagði að sterklega kæmi til greina af sinni hálfu að skoða það að leyfa innflutning á landbúnaðarvörum sem skortur væri á hér á landi án aðflutningsgjalda. Það þykir mér merk yfirlýsing. Án þess að hann þurfi að svara því geri ég ráð fyrir að hann eigi við nautakjöt þegar nautakjöt skortir, osta ýmsa þegar þá skortir, jafnvel svínakjöt þegar það skortir,“ sagði Össur.

 

Bændur standast samkeppni

 

Willum svaraði og sagði: „Já, ég ítreka það sem ég hef sagt hér og hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Ég ber mikla virðingu fyrir bændum og innleggi þeirra í matvælaframleiðslu og hlutverki þeirra í ferðaþjónustu. Ég gæti haldið lengri ræður um það. En þegar við horfum upp á skort á kjötvörum ýmiss konar eins og við þekkjum, á ostum eða hvaða vöruflokkum sem háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson nefndi hér, erum við örugglega sammála um að við eigum að leita leiða til að bæta hag neytenda. Ég treysti bændum fullkomlega til að standa með okkur í því. Öll samkeppni verður til bóta. Þeir standast hana alla leið.“

 

Össur kom aftur í ræðustól og hrósaði Willum Þór: „Hann er kjarkmikill maður að segja þetta.“

 

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á fáránleika þess að leggja háa tolla á búvörur, þar sem innanlandsframleiðsla ýmist annar ekki eftirspurn eða eru alls ekki framleiddar á Íslandi. Þeim virðist nú fara fjölgandi sem taka undir þann málflutning.

 

Umræðurnar í heild á vef Alþingis

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning