Undið ofan af öfugum samruna

22.01.2015

76d566af3c4bee1Félag atvinnurekenda hefur kynnt fyrir stjórnvöldum tillögur að því hvernig megi vinda ofan af vanda fyrirtækja sem fengu endurálagningu skatta vegna svokallaðs öfugs samruna. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag.

FA hefur í samstarfi við Málflutningsstofu Reykjavíkur unnið að tillögum að lausn á framtíðarvanda fyrirtækja, sem fengu ranga ráðgjöf frá endurskoðendum og fóru í framhaldinu í öfugan samruna í því skyni að draga vaxtagjöld af lánum, sem móðurfélag tók vegna fjármagna kaup á hlutabréfum í dótturfélagi, frá skattskyldum tekjum dótturfélagsins. FA og MSR hafa meðal annars efnt til opins fundar um málið.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður hjá MSR, segir í Viðskiptablaðinu að tillögurnar feli í sér að vinda ofan af samrunanum með aðferðum félagaréttarins. Lögð verða til grundvallar mál tveggja fyrirtækja sem eru í þessari stöðu og er næsta skref að leita bindandi álits skattayfirvalda.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í Viðskiptablaðinu að málið snúist um sanngirni og hagræði. „Þetta er ákveðið sanngirnismál. Fyrirtækin voru í góðri trú og til voru aðrar aðferðir sem skiluðu sömu skattalegu niðurstöðu. Þessi fyrirtæki hafa nú tekið á sig ákveðið högg sem felst í endurálagningu skatta með álagi þar á. Það verður ekki aftur tekið, en til framtíðar litið verður að tryggja að rekstrarumhverfið sé eðlilegt og að þar sé jafnræðis gætt,“ segir Ólafur.

FA og MSR áttu fund á miðvikudag með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og kynntu honum þær hugmyndir að lausn, sem fyrir liggja. Ólafur segir í Viðskiptablaðinu að fundurinn hafi verið hvatning og ljóst að í fjármálaráðuneytinu séu menn meðvitaðir um stöðuna og opnir fyrir lausnum.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins 22. janúar 2015

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning