Undirverðlagning á undirverðlagningu ofan

27.02.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021.

Í fjórtán mánuði hefur það ástand ríkt á póstmarkaði að verðskrá ríkisfyrirtækisins Íslandspósts fyrir pakkadreifingu er langt undir raunkostnaði við að veita þjónustuna. Það vegur að rekstrargrundvelli keppinauta fyrirtækisins, vöruflutninga- og póstdreifingarfyrirtækja sem ýmist þjónusta allt landið eða sitt heimasvæði, þá gjarnan í samstarfi við önnur einkafyrirtæki. Lagabreyting um eitt verð á pakkadreifingu fyrir allt landið, sem Pósturinn hefur hengt hatt sinn á, var sögð í þágu byggðastefnu. Það er skrýtnasta byggðastefna sögunnar að grafa undan rekstri fyrirtækja víða um land með undirverðlagningu ríkisfyrirtækis.

Gjaldskrá Póstsins brýtur gegn því skýra ákvæði póstlaganna að verðskrár fyrir alþjónustu skuli miða við raunkostnað við veitingu þjónustunnar, að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Alþingismenn átta sig ári síðar
Í Morgunblaðinu á miðvikudag tjáðu formaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sig um stöðuna. Báðir tala þeir um að bjóða eigi út alþjónustu á póstmarkaði. Það er ekki galin hugmynd, en gerir ekkert til að bæta úr stöðunni sem lýst er hér að ofan. Það þarf að stöðva undirverðlagningu Íslandspósts áður en hún veldur enn meira skaða á póstmarkaði en orðið er.

Bæði Bergþór Ólason og Jón Gunnarsson segjast vera steinhissa á að verðskrá Póstsins skekki samkeppnisstöðuna á póstmarkaðnum. Félag atvinnurekenda (FA) hefur þó bent á verðskrána, ólögmæti hennar og afleiðingar, síðan í janúar í fyrra. Það er út af fyrir sig jákvætt að alþingismenn eru að byrja að átta sig rúmu ári síðar, en það virðist enn djúpt á hugmyndum um hvernig stjórnvöld geti gripið í taumana.

Jón segist í blaðinu telja að Pósturinn sé í erfiðri stöðu, þar sem hærri verðskrá „myndi hafa neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu Póstsins á höfuðborgarsvæðinu og skilja fyrirtækið eftir með dýrasta reksturinn.“ Hér hefur grundvallaratriði farið framhjá varaformanni samgöngunefndar, sem var þó bent á í minnisblaði sem FA sendi nefndinni fyrir fund hennar 21. janúar síðastliðinn. Þar kom fram að pakkaþjónusta Póstsins var þegar undirverðlögð á árinu 2019; þorra 527 milljóna króna taps af samkeppnisrekstri innan alþjónustu á því ári mátti rekja til pakkasendinga innanlands, samkvæmt því sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) staðfesti við Morgunblaðið 11. desember sl.

Með öðrum orðum var pakkadreifingin undirverðlögð um hundruð milljóna króna á árinu 2019 og ætla má að þótt Pósturinn hefði reiknað út meðalverð fyrir þjónustuna á landinu öllu í ársbyrjun 2020 hefði verðskráin á höfuðborgarsvæðinu áfram verið undir raunkostnaði.

Lagaákvæðið sem gleymdist
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt makalausa ákvörðun sem sagt hefur verið frá hér í blaðinu, þar sem Íslandspósti eru reiknaðar 509 milljónir króna í greiðslur vegna alþjónustubyrði, þar á meðal 126 milljónir króna vegna áðurnefnds lagaákvæðis um eitt verð um allt land og 181 milljón í viðbót vegna þjónustu á svæðum sem PFS hefur tekið sér fyrir hendur að skilgreina sem „óvirk markaðssvæði“ jafnvel þótt þar hafi lengi verið samkeppni í pakkadreifingu. Samtals er því niðurgreiðsla skattgreiðenda á undirverðlagðri pakkaþjónustu Íslandspósts líklega vel á þriðja hundrað milljóna króna.

Í grein undirritaðs hér í blaðinu 16. febrúar síðastliðinn var lýst furðu á fréttum af því að „samtal“ ætti sér stað á milli samgöngu- og fjármálaráðuneyta, PFS og Póstsins um greiðslur vegna alþjónustubyrði. Þetta vakti óneitanlega spurningar um hvort rétt væri að verki staðið, því að útreikningar á alþjónustubyrði eru ekki pólitískt viðfangsefni. Sú virðist þó hafa orðið raunin.

Eftir að FA vakti fyrst athygli á ólögmæti pakkagjaldskrár Póstsins í janúar í fyrra sýndi Póst- og fjarskiptastofnun viðleitni til að sinna eftirlitshlutverki sínu og krafðist þess að fyrirtækið sýndi fram á að hún uppfyllti það ákvæði póstlaganna að verðskrár fyrir alþjónustu taki mið af raunkostnaði. Það gat Pósturinn augljóslega ekki gert. Þetta ákvæði er lykilatriði í póstlögum, ekki bara hér á landi heldur í Evrópulöggjöfinni, og er ætlað að koma í veg fyrir skaðlega undirverðlagningu og óréttmæta samkeppnishætti alþjónustuveitenda. Ekki þarf að fletta lengi í ákvörðunum PFS til að sjá að þetta ákvæði hefur árum saman verið rauður þráður í umfjöllun um gjaldskrár Íslandspósts.

Nú bregður hins vegar svo við að í 41 bls. ákvörðun PFS um niðurgreiðslu skattgreiðenda á kostnaði Íslandspósts er þetta lagaákvæði ekki nefnt einu orði – eins og það hafi bara gufað upp úr lögunum sem stofnunin á að hafa eftirlit með!

Þetta bendir sterklega til þess að Póst- og fjarskiptastofnun sé alls ekki sjálfstæð í störfum sínum eins og hún á að vera, heldur láti hún stjórnmálamenn segja sér fyrir verkum.

Skeytingarleysi, seinagangur og meðvirkni
Viðbrögð ráðuneyta, Alþingis og eftirlitsstofnana við þeirri stöðu sem lýst var hér í upphafi, ólögmætri undirverðlagningu þjónustu ríkisfyrirtækis á kostnað einkarekinna keppinauta, hafa einkennzt af skeytingarleysi, seinagangi og því sem verður líklega bezt lýst sem meðvirkni. Undirritaður hefur spurt áður og spyr nú enn – það mætti til dæmis beina spurningunni til formanns og varaformanns samgöngunefndar Alþingis fyrst nú örlar loks á skilningi hjá þeim – hver ætlar að taka í taumana og stöðva þetta framferði Póstsins?

Nýjar fréttir

Innskráning