Félag atvinnurekenda gagnrýnir eindregið útfærslu á áformum stjórnvalda um að leggja sérstakan skatt, nikótíngjald, á nikótínvörur eins og rafrettur og nikótínpúða. Félagið bendir á að samkvæmt drögum að frumvarpi fjármálaráðherra verði annars vegar of lítill munur á skattlagningu á tóbaks og skaðaminni nikótínvara og hins vegar sé ekki gert ráð fyrir mismunandi gjaldi á nikótínvörur eftir styrk þeirra. Í útfærsluna vanti því bæði hvata til að færa sig úr tóbaki yfir í skaðaminni nikótínvörur og sömuleiðis til að velja nikótínvörur með lægri styrk.
Í umsögn FA til fjármála- og efnahagsráðuneytisins lýsir félagið skilningi á því að skattur sé lagður á nikótínvörur. Hins vegar er bent á að samkvæmt dæmum í greinargerð með frumvarpsdrögunum myndi stöðluð 15 gramma dós af nikótínpúðum hækka um 405 krónur með nikótíngjaldi, en tóbaksgjald á pakka af sígarettum er 604 kr. „Verði frumvarpið óbreytt að lögum er orðinn alltof lítill munur á nikótíngjaldi og tóbaksgjaldi. Gengur það gegn lýðheilsumarkmiðum um að minnka tóbaksreykingar,“ segir í umsögn FA. Bent er á mikinn samdrátt í tóbaksreykingum á undanförnum árum, en margir reykingamenn hafa skipt yfir í skaðaminni nikótínvörur. Þá hefur tilkoma nikótínpúða dregið stórlega úr neyslu á íslensku neftóbaki sem notað er í vör. „Lítill munur á skattlagningu tóbaks og skaðaminni nikótínvara er ekki líklegur til að hjálpa til við að ná markmiðum um reyklaust Ísland,“ segir í umsögninni.
FA tilgreinir jafnframt fordæmi frá t.d. Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem mismunandi skattur er lagður á nikótínvörur eftir styrk þeirra, en í frumvarpsdrögum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að skattlagning hér á landi fari eftir þyngd varanna en ekki styrkleika. FA bendir á að eðli máls samkvæmt leiði sú leið sem farin er í áðurnefndum ríkjum til lægra smásöluverðs á nikótínpúðum og rafrettuvökva sem innihaldi lægri styrk nikótíns og sé þannig hvatning til þeirra sem nota nikótínvörur að kaupa þær vörur sem innihalda minna af ávanabindandi efninu.
Gjöldin verði lægri og þrepaskipt
„FA leggur til að fyrirhuguð gjöld á nikótínvörur og rafrettuvökva verði lækkuð svo að enn sé hvati fyrir neytendur að kaupa nikótínvörur fremur en tóbaksvörur enda mikill munur á skaðsemi varanna. Með lækkun gjaldanna væri einnig ávinningur sem myndi skila sér til heilbrigðiskerfisins þar sem áfram
væri hvati til að velja fremur skaðaminni nikótínvörur en skaðlegar tóbaksvörur. Hér ber jafnframt að
hafa í huga áhrif verðhækkana á vörunum á verðlag í landinu og markmið fjárlagafrumvarpsins um
hjöðnun verðbólgu,“ segir í umsögn FA. „Ennfremur hvetur FA til þess að gjöldunum verði breytt og tillit tekið til styrkleika varanna þar sem nikótínvörur og rafrettuvökvar hér á landi eru allt frá því að vera nikótínlaus (0 mg/ml / g per púða) upp í 20 mg/ml / g per púða. Með því að hafa gjaldið þrepaskipt er hægt að hvetja neytendur til að kaupa nikótínvörur og rafrettuvökva sem innihalda minni styrk og meiri hvati myndast fyrir neytendur að trappa niður notkun sína.“
Skattur á sumar nikótínvörur en ekki aðrar
Þá fer félagið fram á rökstuðning ráðuneytisins fyrir því að ekki eigi að leggja nikótínskatt á nikótíntyggjó, nikótínplástra eða rafrettur sem flokkast sem lækningatæki. Í umsögninni er bent á að ein ríkisleið henti ekki endilega fólki sem vill hætta að reykja eða minnka nikótínnotkun.