Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 6. júlí 2024.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Anna Hrefna Ingimundardóttir aðstoðarframkvæmdastjóri skrifuðu grein í Morgunblaðið mánudaginn 1. júlí undir fyrirsögninni „Úr samkeppni í einokun?“. Þar er tekið undir gagnrýni ráðgjafarfyrirtækisins Portwise, sem vann skýrslu fyrir Eimskip um rekstrarfyrirkomulag Sundahafnar. Skýrsluhöfundar deildu hart á skýrslu annars alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis, Drewry, sem lagði til í skýrslu sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir að skipaafgreiðsla í Sundahöfn yrði sameinuð og annaðhvort rekin af höfnunum sjálfum eða óháðum þriðja aðila, en ekki af Eimskipi og Samskipum, eins og verið hefur um áratuga skeið. Sambærilegt fyrirkomulag er við lýði í mörgum höfnum í nágrannalöndunum, sem eru af svipaðri stærð og Sundahöfn. Sigríður og Anna kalla þetta að „horfið yrði frá núverandi fyrirkomulagi samkeppni yfir í einokunarrekstur.“
Fíllinn í herberginu
Hér tekst að snúa hlutunum dálítið duglega á haus. Mat Drewry var að með þessum breytingum myndi nást fram mikil hagræðing og aðkoma nýrra skipafélaga að Sundahöfn yrði auðvelduð – með öðrum orðum myndu þær stuðla að aukinni samkeppni í skipaflutningum, í stað þess fákeppnisástands sem lengi hefur ríkt í þessari stærstu innflutningshöfn landsins. Félag atvinnurekenda hefur um langt skeið verið talsmaður slíkra breytinga í Sundahöfn, til þess að efla samkeppni í flutningum til hagsbóta fyrir félagsmenn sína. Þeir eru langflestir fyrirtæki í ýmist inn- eða útflutningi og hafa verið hæfilega ánægðir, vægast sagt, með þá kosti sem þeim standa til boða í skipaflutningum.
Greinarhöfundum tekst að skrifa grein um samkeppni í skipaflutningum án þess að nefna fílinn í herberginu, sem er stórskaðað orðspor Eimskips og Samskipa eftir að félögin urðu uppvís að því ólögmæta samráði, sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa í fyrra. Eimskip hefur þegar játað þátttöku í slíkum brotum og greitt sekt. Viðbrögð skipafélaganna – þar sem Samskip hefur þverneitað að hafa gert nokkuð rangt og Eimskip hefur fremur kosið þögnina – hafa lítið gert til að sannfæra viðskiptamenn þeirra um að þau vilji raunverulega þá „virku samkeppni í vöruflutningum“ sem Sigríður Margrét og Anna Hrefna segja réttilega að sé mikilvæg fyrir bæði íslenzkt atvinnulíf og almenning.
68% telja samkeppni ónóga
Í könnun, sem FA gerði meðal félagsmanna sinna í byrjun ársins, var meðal annars spurt um afstöðu þeirra til fullyrðingarinnar „samkeppni í sjóflutningum er virk og til hagsbóta fyrir mitt fyrirtæki“. Af þeim sem svöruðu sögðust 19% sammála eða mjög sammála en 68% sögðust ósammála eða mjög ósammála. Þegar spurt var hvort fyrirtækin teldu verðlagningu í sjó- og landflutningum eðlilega og sanngjarna voru 6% sammála eða mjög sammála því en 74% ósammála eða mjög ósammála. Svipuð svör hafa lengi fengizt um gegnsæi í verðlagningu skipafélaganna. Fróðlegt væri að sjá niðurstöður úr sambærilegri könnun meðal félagsmanna Samtaka atvinnulífsins – ætli niðurstöðurnar væru öðruvísi?
Það ætti því ekki að koma skipafélögunum eða talsmönnum þeirra í forystu SA á óvart að fyrirtækin í landinu taki með miklum fyrirvara þeim málflutningi að óbreytt ástand í Sundahöfn sé ákjósanlegast. Aukin samkeppni, þar sem ný skipafélög veittu Eimskipi og Samskipum samkeppni í Sundahöfn og væru ekki háð keppinautum sínum um skipaafgreiðslu, er í augum fjölda fyrirtækja æskilegt markmið.
Hitt er svo annað mál að full ástæða er til að taka mark á ýmsum þeim ábendingum og gagnrýnisatriðum sem fram koma í skýrslu Portwise, til dæmis um það hvernig verðlagningu skipaafgreiðslu í Sundahöfn yrði háttað og hvernig væri hægt að tryggja áfram þann sveigjanleika í afgreiðslutíma sem inn- og útflytjendur búa við í dag og er algjört lykilatriði varðandi viðskipti með ferskvöru á borð við sjávarafurðir eða ávexti og grænmeti, sem þurfa að komast á markað sem allra fyrst. Það er rétt hjá forsvarsmönnum SA að breytingar í Sundahöfn á að gera að rækilega athuguðu máli þannig að þær verði áreiðanlega til bóta.
Hafa skipafélögin lært af mistökum fortíðar?
Mögulega er hægt að opna fyrir aukna samkeppni í Sundahöfn með öðrum aðferðum en lagðar eru til í skýrslu Drewry, til dæmis með því að Eimskip og Samskip undirgangist kvaðir um að þjónusta keppinauta á verðskrá, sem er gegnsæ og í samræmi við raunkostnað. Besta leið stóru skipafélaganna út úr þeirri orðsporskreppu sem þau eru í, er að vinna með hafnaryfirvöldum í Sundahöfn að því að opna samkeppnisumhverfið og fjölga kostum inn- og útflytjenda. Með því að fyrirtækin hefðu raunverulega samkeppni myndu fleiri viðskiptamenn þeirra mögulega líta á sig sem viðskiptavini, fremur en gísla áratuga gamals tvíkeppnisfyrirkomulags. Meiri og virkari samkeppni er þess vegna sameiginlegt hagsmunamál skipafélaganna og inn- og útflutningsfyrirtækja. Þau síðarnefndu sakna hins vegar uppbyggilegs samtals við skipafélögin og talsmenn þeirra um að menn hafi lært af mistökum fortíðarinnar og vilji breytingar til hins betra.