Úrskurðarnefnd: Pósturinn fær ekki að ýta keppinautum af markaði

07.11.2018

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í október í fyrra, þar sem Íslandspóstur var hindraður í áformum sínum um að fella niður viðbótarafslætti hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði. Söfnunaraðilar eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn, sem safna pósti frá stórnotendum og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 grömmum

Hefði hrakið keppinauta af markaði
Félag atvinnurekenda fagnar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og ítrekar þá afstöðu sína að hefði uppsögn afsláttanna fengið að standa, hefði það haft gríðarlega neikvæð áhrif á samkeppni á póstmarkaði. Rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan starfsemi söfnunaraðila, þeir hefðu neyðst til að segja upp öllum sínum viðskiptasamningum og hætta starfsemi. Viðskipti þeirra hefðu fallið ríkisfyrirtækinu Íslandspósti sjálfu í skaut.

Í rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar er átalið að Íslandspóstur hafi ekki skilað til Póst- og fjarskiptastofnunar gögnum til að rökstyðja afstöðu sína, er stofnunin fór fram á frekari rökstuðning. „Verður að telja, í ljósi allra málsatvika, að full ástæða hefði verið fyrir kæranda að rökstyðja mál sitt frekar,“ segir meðal annars í úrskurðinum, sem kveðinn var upp á mánudag.

Þrjár milljónir í málarekstur
Ákvörðun Íslandspósts um að fella niður afslætti söfnunaraðila var tilkynnt þeim bréflega 7. apríl 2017 og greint frá því að afslættirnir myndu falla úr gildi 1. september sama ár. Félag atvinnurekenda brást við með því bæði að senda Íslandspósti bréf og funda með stjórnendum fyrirtækisins til að skora á það að falla frá þessari ákvörðun, enda væri hún bæði ólögmæt og stórskaðleg samkeppni. Stjórnendur Íslandspósts héldu engu að síður sínu striki. Ríkisfyrirtækið vildi ekki una bráðabirgðaákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, sem tekin var í lok júní 2017. Stofnunin tók endanlega ákvörðun í október. Íslandspóstur hefur engu að síður haldið málinu áfram með ærnum tilkostnaði, þrátt fyrir fjárhagsörðugleika sem nú hafa knúið fyrirtækið til að biðja skattgreiðendur um hálfs milljarðs króna fyrirgreiðslu. Þannig kemur fram í ákvörðunarorðum úrskurðarnefndarinnar að Íslandspóstur skuli greiða tæplega 2,8 milljónir króna í málskostnað.

Skýr og ítrekuð niðurstaða eftirlitsstofnana
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar kemur ekki á óvart, í ljósi þess að bæði PFS og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafa áður komist að skýrri niðurstöðu um að söfnunaraðilar á póstmarkaði ættu að njóta viðbótarafslátta frá gjaldskrá Íslandspósts. Í ákvörðun sinni árið 2012 sagði úrskurðarnefndin: „Að mati nefndarinnar standa rök til þess samkvæmt gögnum málsins að stighækkandi afsláttur fyrir þá sem afhenda reglubundið mikið magn í einu orsaki sparnað fyrir póstrekanda sem taka verði tillit til með hliðsjón af 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu. Slík reglubundin viðskipti ættu að auka yfirsýn póstrekanda og þar með skilvirkni og möguleika Íslandspósts til þess að hagræða í rekstri. Slík viðskipti ættu að valda því að betur megi skipuleggja það fjármagn og mannafla sem nota þarf til að taka við pósti frá stórnotendum og koma jafnframt í veg fyrir ofmönnun eða –fjárfestingu.“ Í hinum nýja úrskurði er ítrekað að þessi grunnforsenda hafi ekki breyst.

Afslættir of lágir miðað við afkomuna innan einkaréttar
Í rökstuðningi Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir því að ákvörðun stofnunarinnar verði látin standa, segir meðal annars: „Þá bendir PFS á að ekkert í ytra umhverfinu í rekstri kæranda [Íslandspósts] bendi til þess að afslættir fyrirtækisins vegna magnpósts séu of háir. Þvert á móti megi halda því fram að þeir væru of lágir miðað við þá afkomu sem var innan einkaréttar á árinu 2016.“

Einbeittur brotavilji þrátt fyrir sáttina
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið fagni að sjálfsögðu niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. „Niðurstaðan gat ekki orðið önnur. Það sem vekur hins vegar athygli er einbeittur vilji ríkisfyrirtækisins til að drepa af sér samkeppni, þrátt fyrir sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts, sem átti að taka á óviðunandi samkeppnisháttum fyrirtækisins. Það vekur líka athygli að Íslandspóstur eigi svona mikla peninga til að kosta málarekstur fyrir úrskurðarnefndinni á sama tíma og fyrirtækið biður skattgreiðendur um aðstoð. Það verður fróðlegt að sjá hvort ríkisfyrirtækið eyðir enn meiri peningum í að sækja málið fyrir dómstólum,“ segir Ólafur.

Ólafur segir fleiri dæmi um að Íslandspóstur taki sáttina við Samkeppniseftirlitið ekki alvarlega og vísar meðal annars til nýlegrar kæru FA vegna lánveitinga Póstsins til dótturfyrirtækisins ePósts, sem ekki eru í samræmi við sáttina.

Úrskurðurinn í heild

Nýjar fréttir

Innskráning