Úrskurður Kjararáðs óheppilegt innlegg í viðkvæma stöðu

07.11.2016

AlthingiÚrskurður Kjararáðs um að hækka laun alþingismanna, ráðherra og forseta um hundruð þúsunda króna er óheppilegt innlegg í viðkvæma stöðu á vinnumarkaðnum, að mati framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær ræddu Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um kjara- og efnahagsmál. Úrskurð Kjararáðs bar á góma og voru Ólafur og Gylfi sammála um að hún hleypti illu blóði í viðræður á vinnumarkaði, þar sem staðan væri nógu erfið fyrir.

„Þetta er augljóslega mjög óheppilegt innlegg í viðkvæma stöðu á vinnumarkaðnum. Nú getum við verið sammála um það að þingmenn eigi að hafa góð laun. Það á að fást gott fólk í þessi störf og svo framvegis. En bæði tímasetningin á þessari miklu hækkun og bara stærðargráðan er að öllu leyti mjög óheppileg,“ sagði Ólafur.

Kjararáð illa læst á samfélagið?
Hann sagðist velta fyrir sér hvort kjararáð væri illa læst á samfélagið sem það starfaði í. Þótt ráðið starfaði samkvæmt lögum hefði það umtalsvert svigrúm til að móta ákvarðanir sínar, bæði hvað varðaði þær viðmiðanir sem valdar væru og eins hefði það átt að geta áfangaskipt launahækkuninni, rétt eins og launþegar á almennum vinnumarkaði fengju hækkanir í smærri þrepum.

Viðtal við Ólaf Stephensen og Gylfa Arnbjörnsson á Sprengisandi

 

Nýjar fréttir

Innskráning