Útboð á farmiðakaupum ríkisins frestast

14.07.2015

FlugmiðarÚtboði á flugfarmiðakaupum ríkisins, sem átti að fara fram á fyrri hluta ársins, hefur verið frestað til haustsins. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum hefur öflun og úrvinnsla upplýsinga vegna útboðsins reynst tímafrekt verkefni og náðist ekki að ljúka því fyrir sumarleyfi.

Í byrjun september verða þrjú ár liðin frá því að Ríkiskaup sögðu upp þágildandi rammasamningi um farmiðakaup og tilkynntu að farmiðaviðskipti ríkisins yrðu boðin út á nýjan leik. Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt harðlega að allur þessi tími skuli hafa liðið án þess að efnt væri til útboðs. Félagið hefur ennfremur gagnrýnt að ríkisstarfsmenn fái vildarpunkta til einkanota vegna flugferða sem þeir fljúga á kostnað skattgreiðenda. Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins í mars síðastliðnum var boðað að útboð á farmiðaviðskiptum færi fram á fyrri hluta ársins, jafnframt að þar yrði „haft að leiðarljósi að einkahagsmunir þess starfsmanns  sem ferðast hverju sinni ráði ekki vali á flugfélagi.“

Eftir að júnímánuður leið án þess að útboð væri auglýst sendi FA Ríkiskaupum fyrirspurn um stöðu málsins. Í svari stofnunarinnar segir að henni þyki miður að ekki hafi náðst að auglýsa útboðið. „Undanfarna mánuði hefur verið lögð mikil vinna í ítarlega greiningu á keyptum flugferðum á vegum allra ráðuneyta Stjórnarráðsins.  Öflun upplýsinga og úrvinnsla þeirra hefur reynst vera viðamikið og tímafrekt verkefni og því náðist ekki að ljúka verkefninu fyrir sumarleyfi.  Gert er ráð fyrir að auglýsa útboð á haustmánuðum.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir miður að enn dragist á langinn að efna til útboðs. „Það er þó gott að málin eru komin á hreyfingu og þetta útboð þarf  að auglýsa hið fyrsta. Það er ótækt að þrjú ár líði án þess að hundraða milljóna króna viðskipti ríkisins séu boðin út. Með útboði er annars vegar séð til þess að öll flugfélög sitji við sama borð og skattgreiðendum hins vegar tryggður sparnaður í krafti samkeppninnar,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning