Útboð á flugmiðakaupum: Tekið fyrir punktasöfnun ríkisstarfsmanna

03.09.2015

FlugmiðarFréttavefurinn Túristi greinir frá því í dag að útboð ríkisins á flugmiðakaupum muni fara fram síðar í mánuðinum. Það átti upphaflega að fara fram á fyrri hluta ársins en frestaðist til hausts. Í frétt Túrista kemur einnig fram að í útboðsskilmálum verði tekið fyrir að ríkisstarfsmenn geti safnað á kostnað skattgreiðenda vildarpunktum, sem þeir nýti síðan í eigin þágu.

Eins og fram kemur í fréttinni hefur Félag atvinnurekenda lengi talað fyrir nýju útboði og að komið verði í veg fyrir að einstaka bjóðendur geti boðið starfsmönnum ríkisins sporslur fyrir að beina viðskiptum sínum til þeirra. „Svo virðist sem þetta sjónarmið verði ofan á því samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum þá er gert ráð fyrir því í komandi útboði að óheimilt verði að bjóða hvata til ferða hjá ákveðnu flugfélagi og reynt verður að koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun einstaklinga. Í svari frá Ríkiskaupum er jafnframt bent á að siðareglur ráðuneytanna muni gilda fyrir samninginn og þar kemur meðal annars fram að starfsmönnum sé með öllu óheimilt að veita viðtöku hvers konar gjöfum,“ segir í frétt Túrista.

Nýjar fréttir

Innskráning