Útboð spara háar fjárhæðir

17.05.2016
Guðlaugur Þór Þórðarson og Skúli Magnússon voru meðal frummælenda á vel sóttum fundi FA um útboðsmál.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Skúli Magnússon voru meðal frummælenda á vel sóttum fundi FA um útboðsmál.

„Útboð er auðveldur sparnaður,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, á fundi Félags atvinnurekenda um útboðsmál í morgun. Fullt var út úr dyrum á fundinum, enda brenna útboðsmálin á mörgum aðildarfyrirtækjum FA.

Guðlaugur Þór sagði gífurleg vannýtt tækifæri í því að bjóða út kaup vöru og þjónustu á vegum opinberra stofnana. Hann ætti enn eftir að hitta þann forstöðumann opinberrar stofnunar sem teldi að hægt væri að spara og komast af með minni fjármuni til sinnar stofnunar. Hins vegar væru ekki allar stofnanir til í að spara með útboðum. „Stofnanir sem bjóða ekki út hljóta að hafa of mikið á milli handanna og þarf þá að skera sérstaklega niður hjá þeim,“ sagði Guðlaugur.

Hann sagði að kannanir fjárlaganefndar hefðu sýnt að af 160 ríkisstofnunum hefðu innan við 50% boðið út innkaup. Hjá þeim væru 1,3 til 45,6% af innkaupum boðin út eftir vöru- og þjónustuflokkum. Oft væru augljós tækifæri til sparnaðar ekki nýtt, eins og að bjóða út innkaup á rafmagni sem væri algjörlega einsleit vara. Aðeins 7,5% stofnana hefðu boðið út innkaup á rafmagni.

Tuga prósenta sparnaður í sameiginlegum útboðum
Guðlaugur sagði að rammasamningar ríkisins virkuðu oft sérkennilega. Í rammasamningsútboði á eldsneytiskaupum hefði Olís boðið langhæsta afsláttinn í sjálfsafgreiðslu. Afleiðingin hefði átt að vera að fyrirtækið fengi meirihluta eldsneytisviðskipta ríkisins, en raunin væri sú að ríkið keypti 42% af sínu eldsneyti hjá Olís. Guðlaugur nefndi dæmi af fyrirtæki sem hefði ákveðið að prófa að bjóða engan afslátt í rammasamningi við ríkið. Það hefði ekki breytt neinu um viðskiptin.

Guðlaugur sagði að ná mætti miklum sparnaði með því að ríkisstofnanir sameinuðust um útboð. Hann fór yfir niðurstöður nýlegra örútboða á tölvum og ljósritunarpappír fyrir hóp ríkisstofnana. Niðurstaðan í útboði á tölvum hefði verið 25% lægra verð en það sem ríkið hefði fram að því fengið sem lægsta verð. Þetta þýddi 10-12 milljóna sparnað fyrir átta stofnanir. Niðurstaða útboðs á pappír hefði verið 30% afsláttur til viðbótar við það sem væri í rammasamningi. Þetta þýddi fjögurra milljóna króna sparnað fyrir fjórtán stofnanir.

Þingmaðurinn sagði að þrátt fyrir allt væri eitthvað að gerast í útboðsmálum ríkisins. Útboð stuðluðu að heilbrigðri og eðlilegri samkeppni, sem væri ekki síst mikilvægt fyrir minni fyrirtæki.

Skortur á eftirliti með opinberum innkaupum
Skúli Magnússon, héraðsdómari og formaður kærunefndar útboðsmála, tók undir að vinnubrögð við opinber útboð hefðu batnað. Enn væri þó þrýstingur frá ríkisstofnunum á að haga innkaupum að eigin geðþótta.

Skúli sagði yfirstjórn innkaupamála hjá ríkinu væri veik og ríkið eyddi í hana litlu púðri. Starfsmaður í hlutastarfi í fjármálaráðuneytinu sinnti þessum málaflokki. Ríkiskaup væru þjónustustofnun og miðstöð þekkingar á innkaupamálum en ekki í aðstöðu til að hafa eftirlit eða stýra innkaupum ríkisins. Möguleikar ríkisins til að stýra innkaupum sínum væru lítið notaðir og sagði Skúli það tilgátu sína að þarna lægi „engin raunveruleg hugsun að baki.“

Hann sagði að nánast ekkert frumkvæðiseftirlit væri af hálfu ríkisins sjálfs með opinberum innkaupum. Ríkisendurskoðun reyndi stundum að hvetja til betri vinnubragða og sömuleiðis Samkeppniseftirlitið. Kærunefndin væri ekki eftirlitsstjórnvald Eftirlitið væri því mjög háð fyrirtækjunum í landinu, að þau legðu fram kvartanir til kærunefndarinnar.

Sveitarfélög undanþegin
Skúli sagði að göt væru í regluverkinu. Eitt það stærsta væri að sveitarfélögin væru að stórum hluta undanþegin regluverkinu. Hann hefði því grun um að innkaupamál þeirra væru „villta vestrið“. Skúli sagði að miðað við það að hversu litlu leyti lög um opinber innkaup tækju til sveitarfélagana mætti kalla það afrek hjá Reykjavíkurborg að ná „nánast verðlaunasæti“ á lista FA yfir stofnanir sem oftast eru kærðar til kærunefndarinnar. „Það er umhugsunarvert fyrir þá ágætu stofnun,“ sagði formaður kærunefndar útboðsmála. Hann sagði að oft hefði verið reynt að koma lögunum yfir sveitarfélögin og tilraun væri gerð til þess í frumvarpi til laga um opinber innkaup sem nú lægi fyrir Alþingi. Það kæmi honum hins vegar ekki á óvart að nú sætu menn hjá sveitarfélögunum við að skrifa bréf til þingsins um að reglurnar ættu ekki að eiga við um sveitarstjórnarstigið.

Gagnrýni á rammasamninga, þröngar útboðslýsingar og stífar kröfur
Skúli var mjög gagnrýninn á framkvæmd ríkisins á rammasamningum. Oft væri tekið tilboðum frá mörgum fyrirtækjum og ekkert þeirra ætti víst að fá viðskipti ríkisins. Ef fyrirtækin vissu ekkert um magn viðskipta sem væri í boði væri spurning hvernig þau gætu yfirleitt gert vitrænt tilboð í þau. Hann sagðist efast um að í öllum tilvikum væri þá verið að bjóða út með hagkvæmum hætti.

Of þröngar tæknilegar útboðslýsingar voru eitt af því sem Skúli ræddi í erindi sínu. Hann sagði að ekki mætti ganga svo langt í tæknilegum lýsingum á vörunni að það hefði í raun verið ákveðið hvert tækið væri sem ætti að kaupa eða við hvern ætti að skipta. Þarna yrðu opinberir aðilar að gæta sín. Sönnunarbyrði fyrirtækja, sem kærðu slíkar útboðslýsingar, væri hins vegar erfið. Skúli sagðist gjarnan vilja sjá meira innra eftirlit frá hinu opinbera með þessum málum. Það gæti komið að því að kærunefndin missti þolinmæðina og segðist sjá munstur í því að kröfur væru ítrekað skilgreindar of þröngt. Opinberir aðilar yrðu þá að sýna fram á að kröfurnar væru hlutlausar og ekki ætlaðar til að hindra samkeppni.

Skúli sagði að kröfur til hæfis fyrirtækja væru iðulega mjög strangar. Einkageirinn horfði yfirleitt á lægsta verð en ríkið vildi setja alls konar viðbótarskilyrði. Hann velti fyrir sér hvort ríkið væri með þessu óþarflega oft að útiloka yngri og minni fyrirtæki og hafa þar með áhrif bæði á samkeppni og verð.

Hugsunarhátturinn vandamál
Í umræðum að framsöguerindum loknum sagði Guðlaugur Þór að hann væri efins um að búa til nýja ríkisstofnun til að hafa eftirlit með opinberum innkaupum. Nær væri að efla Ríkiskaup og láta stofnunina hafa auknar heimildir. Vandamálið lægi að hluta til í kerfinu, en líka í hugsunarhættinum. Ákveðinn smákóngahugsun væri í ríkiskerfinu og hreinræktuð íslensk þvermóðska; forstöðumenn ríkisstofnana segðu oft að það hefði verið prófað að bjóða út en gengið illa. Breyta þyrfti hugsunarhættinum og vinnubrögðunum.

Glærur Guðlaugs Þórs

Glærur Skúla

Nýjar fréttir

26. nóvember 2024

Innskráning