Útboð tollkvóta dæmt ólöglegt og innflytjendur fá útboðsgjald endurgreitt

19.03.2021

Landsréttur hefur dæmt það fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur, sem nú er í gildi, andstætt stjórnarskránni. Innflutningsfyrirtæki, sem höfðaði mál á hendur ríkinu vegna útboðsfyrirkomulagsins, er dæmd endurgreiðsla útboðsgjalds úr ríkissjóði.

Málið var höfðað vegna greiðslu á útboðsgjaldi sem Ásbjörn Ólafsson ehf., félagsmaður í Félagi atvinnurekenda, innti af hendi eftir útboð á tollkvóta fyrir búvörur frá ríkjum Evrópusambandsins á árinu 2018. Hæstiréttur hefur áður slegið því föstu að slíkar greiðslur fyrir tollkvóta séu skattur í skilningi stjórnarskrárinnar. Í dómi Landsréttar segir að á þeim tíma sem málshöfðunin tók til, hafi verið kveðið á um það í búvörulögum að tollkvótar skyldu boðnir út og ráðherra setti nánari reglur um úthlutunina í reglugerð. Ráðherra hafi á þessum tíma haft heimildir til að setja ákvæði í reglugerð um hvernig ætti að velja á milli fyrirtækja sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð, eða aðra fjárhæð skyldi miða útboðsgjaldið.

„Samkvæmt framangreindu, og í ljósi hins fortakslausa banns 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar við því að stjórnvöld ákveði hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema, verður skattlagningarheimild 3. mgr. 65. gr. búvörulaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, ekki talin samrýmast ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Álagning gjalda þeirra sem málið varðar studdist samkvæmt þessu ekki við lögmæta skattlagningarheimild og var því ógild,“ segir í dómi Landsréttar.

Ólögmætt fyrirkomulag í gildi til miðs næsta árs
Fyrirkomulag tollkvótaútboðs, sem Landsréttur dæmir þannig andstætt stjórnarskránni, hafði verið aflagt en var tekið upp á ný með samþykkt Alþingis á frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í desember síðastliðnum og á að gilda til miðs næsta árs.

Ásbjörn Ólafsson er eingöngu eitt margra innflutningsfyrirtækja sem höfðað hafa sambærileg mál gegn ríkinu, en fjöldi fyrirtækja bíður með mál sín í Héraðsdómi.

Í þriðja sinn sem gjaldtakan er dæmd ólögmæt
„Þessi dómur er fullkomlega rökréttur með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til skattlagningar í stjórnarskrá og er í algjöru samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður FA sem fór með málið fyrir hönd Ásbjörns Ólafssonar. „Svona skattlagning er einfaldlega bönnuð.  Dómstólar gera ekki annað en að dæma eftir lögum, sem hlaut alltaf að leiða til þess að önnur niðurstaða var óhugsandi.  Þetta er í þriðja skiptið sem dómstólar staðfesta ólögmæti þessarar gjaldtöku en vonandi er nú svo komið að íslenska ríkið hætti að skattleggja tollfrelsið sem það er búið að skuldbinda sig til að veita í alþjóðlegum samningum. Sú niðurstaða er ekki aðeins lögmæt og stjórnskipulega rétt heldur mun hún skila miklum ábata til neytenda og stuðla að aukinni samkeppni og hagsæld.“

Dómur Landsréttar

Umfjöllun Stöðvar 2

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning