Félag atvinnurekenda styður þá tillögu í frumvarpi fjármálaráðherra til nýrra laga um opinber innkaup að almennar reglur laganna um innkaup sem eru undir erlendum viðmiðunarfjárhæðum fyrir Evrópska efnahagssvæðið nái yfir sveitarfélög jafnt og ríkið og stofnanir þess. Þannig verði sveitarfélög skyldug að bjóða út kaup á vöru og þjónustu sem þau þurfa ekki að bjóða út í dag.
„Það er gríðarlegt hagsmuna- og réttlætismál að lög þessi nái að fullu yfir sveitarfélög og stofnanir þeirra. Er það ótækt að mati FA að háttsemi sem alla jafna væri lögbrot af hendi ríkisstofnunar sé það ekki af hendi sveitarfélags. Að gera minni kröfur til ráðstöfunar sveitarfélaga á opinberu fé er auk þess ekki bara siðferðislega vafasamt heldur vinnur gegn almennum sjónarmiðum um ráðdeild og vandaða stjórnsýslu,“ segir í umsögn FA, sem send hefur verið fjárlaganefnd Alþingis.
Rangt að hækka innlendar viðmiðunarfjárhæðir
FA gagnrýnir hins vegar að um leið og þessi breyting er áformuð skuli lagt til í frumvarpinu að innlendar viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa skuli hækkaðar verulega frá því sem nú gildir. Þannig fer útboðsskylda á vörum úr 12 milljónum króna í 15,5 milljónir og útboðsskylda á verkframkvæmdum úr 29 milljónum í 49 milljónir króna. Útboðsskylda vegna þjónustukaupa verður óbreytt í 15,5 milljónum kr.
Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins kemur fram að þessi hækkun sé gerð til þess að koma til móts við sveitarfélögin. „Telur FA gengið of langt með nefndum hækkunum og vísar sérstaklega til tilgangs laganna skv. 1. gr. frumvarpsins sem kveður m.a. á um að hann sé að mæla fyrir reglum um opinber innkaup til að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Ef viðmiðunarfjárhæðir eru hækkaðar úr hófi er Ijóst að það markmið laganna næst ekki þar sem telja má að stór hluti innkaupa sveitarfélaga nái ekki þeim fjárhæðu,“ segir í umsögn FA. „Það er fyrirtækjum sem og hinu opinbera til hagsbóta að viðmiðunarfjárhæðir séu lægri þannig að sem flest innkaup hins opinbera fari í útboð enda er það til þess fallið að fleiri fái tækifæri til að koma með tilboð og þar með tryggja hinu opinbera hagstæðustu kjörin. Með hliðsjón af framangreindu leggur FA til að nefndar hækkanir viðmiðunarfjárhæða verði felldar brott.“
Fjárlaganefnd kalli eftir skriflegum gögnum frá Landspítala
Í umsögn sinni gagnrýnir FA jafnframt þá tillögu frumvarpsins að samkeppnismat vegna þátttöku í útboðum erlendra innkaupastofnana verði aflagt. Talsvert hefur verið deilt um þetta ákvæði frumvarpsins að undanförnu, en það er aðallega tilkomið vegna þrýstings frá Landspítalanum, sem hefur haldið því fram að núverandi lagaákvæði, um að leggja skuli mat á áhrif útboðsins á innlenda samkeppni, hamli hagkvæmari innkaupum.
Í fréttum hefur nýlega komið fram að spítalinn hafi aldrei látið á slíkt samkeppnismat reyna. Halldór Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa sagði í samtali við mbl.is að misskilnings gætti hjá spítalanum. Samkeppnismatið, sem væri fyrir íslenskan markað, þyrfti ekki að framkvæma í samstarfi við aðrar þjóðir. Það sem ætti að gera væri að hafa samband við Ríkiskaup sem framkvæmdi matið í samstarfi við Samkeppniseftirlitið. Taldi Halldór Sigurðsson þetta fremur einfalda aðgerð. Benti hann á að verkferlum fyrir slíkt mat hefði verið komið upp og Ríkiskaup og Samkeppniseftirlitið hefðu verið í góðu samstarfi um það.
„FA telur málflutning Landspítalans í þessu máli með nokkrum ólíkindum, sérstaklega þar sem stofnunin hefur aldrei látið á samkeppnismatið reyna. Félagið leggur til að fjárlaganefnd kalli eftir skriflegum gögnum frá spítalanum um þau útboð sem spítalinn telur að ekki hafi verið hægt að fara í vegna 18. greinar laganna og rök hinna meintu erlendu samstarfsaðila fyrir því að íslensk lög hamli samstarfi,“ segir í umsögn FA.