Vantar enn upp á markmið Evrópustefnu

06.10.2015

EvrópufánarEftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í morgun nýtt yfirlit yfir frammistöðu EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-löggjafar. Eins og áður stendur Ísland sig verst allra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins í þeim efnum. Innleiðingarhallinn (hlutfall reglna sem ekki hafa verið leiddar í innlendan rétt) hefur þó lækkað úr 2,8% í nóvember á síðasta ári í 2,1% í maí síðastliðnum.

Íslensk stjórnvöld hafa þannig tekið sig á, en eru þó enn býsna langt frá því að ná öðru af tveimur tölulegum markmiðum Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá því í mars 2014. Það var að fyrri hluta árs 2015 yrði innleiðingarhallinn kominn undir 1%. Í skýrslu ESA er frammistaða Íslands sögð áhyggjuefni og íslensk stjórnvöld hvött til að taka sig á.

Fimm mál fyrir dómi vegna misbrests á innleiðingu
Hitt tölulega markmiðið var að á sama tíma yrði ekkert dómsmál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum vegna misbrests á innleiðingu EES-reglna. Samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda aflaði sér hjá ESA í dag eru nú fimm mál til meðferðar hjá dómstólnum vegna þess að Ísland hefur ekki innleitt EES-gerðir í íslenskan landsrétt.

Evrópustefna

„Þessi þróun sýnir að það þokast í áttina, en þó er alltof langt í land að markmiðum Evrópustefnu stjórnvalda sé náð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Íslensk fyrirtæki eiga mikið undir því að hér gildi sömu reglur og á stærsta markaðssvæði þeirra, Evrópumarkaðnum. Það er ekki nóg að setja sér góða stefnu, ríkið verður að úthluta fjármunum og mannskap til að fylgja henni eftir. Upp á það vantar ennþá og það er áhyggjuefni fyrir atvinnulífið.“

Málin sem enn eru fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES-reglna eru fimm og eru tenglar á þau hér að neðan. Þau varða meðal annars umhverfismál á eldsneytisstöðvum, réttindi neytenda, skipaflutninga og vörumerkingar.

E-21/15

E-20/15

E-18/15

E-11/15

E-10/15

Fréttatilkynning ESA

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning