Markaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, hefur í dag eftir Svövu Johansen, kaupmanni í NTC, að fríverslunarsamningur Íslands og Kína nýtist ekki smærri verslunum. Til að ná fram þeirri 15% verðlækkun sem samningurinn geti falið í sér, verði verslanir að flytja inn sjálfar beint frá Kína. Hafi varan hins vegar viðkomu í ESB-ríkjum, leggist á tvöfaldur tollur, fyrst í ESB og svo þegar varan er flutt frá ESB til Íslands.
Dagný Jónsdóttir lögfræðingur, sem skrifaði meistararitgerð við HR um fríverslun við Kína, segir að pakkar verði að millilenda á tollfríu svæði í Evrópu, eigi tollfrelsið að haldast ef vara er ekki send beint frá Kína til Íslands. Þetta er í samræmi við það sem fram kom á vinnufundi ÍKV í nóvember; að upprunavottorð og -yfirlýsingar sem sýna fram á að vara hafi verið undir tolleftirliti í þriðja ríki, skipti miklu máli fyrir framkvæmd samningsins.