Varaseðlabankastjóri fjallar um efnahagshorfur 7. september

25.08.2020
Rannveig Sigurðardóttir

Fyrsti félagsfundur haustsins verður haldinn 7. september kl. 10, með fjarfundaforritinu Zoom. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu fjallar um efnahagshorfurnar framundan. Áhugavert verður að heyra hvaða sýn Seðlabankinn hefur á efnahagslífið í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og aðgerða til að sporna við honum.

Rannveig hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 2002, sem varaseðlabankastjóri peningastefnu og aðstoðarseðlabankastjóri síðastliðin tvö ár. Áður var hún staðgengill aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans. Rannveig hefur jafnframt verið ritari peningastefnunefndar og sinnt verkefnum er lúta að samstarfi Seðlabankans og OECD. Áður starfaði Rannveig sem hagfræðingur BSRB og Alþýðusambands Íslands. Rannveig er hagfræðingur að mennt og lauk fil. kand. prófi og meistaraprófi í hagfræði frá Gautaborgarháskóla og stundaði þar doktorsnám.

Fjarfundaforritið Zoom er einfalt í notkun og hefur verið notað fyrir félagsfundi FA eftir að heimsfaraldurinn reið yfir. Sendur verður hlekkur til skráðra fundarmanna í góðan tíma fyrir fund. Gert er ráð fyrir að fyrirspurnum sé beint til frummælanda í gegnum spjallborð forritsins. Fundarstjóri verður Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. Hér að neðan er hægt að skrá sig á fundinn.

Hér er örstutt kennslumyndband um hvernig á að taka þátt í Zoom-fundi. Hér er hægt að hlaða forritinu niður.

Skráning á fundinn

Nýjar fréttir

Innskráning