Varaseðlabankastjóri fjallar um efnahagshorfur á morgunverðarfundi

20.08.2025

Hvað þarf að koma til svo stýrivextir lækki? Hvað kyndir verðbólgubálið? Er nægilegt aðhald í ríkisfjármálunum? Hvað þýða tollahækkanir á alþjóðlegum mörkuðum fyrir íslenskt efnahagslíf? Gera má ráð fyrir að þessar spurningar og ýmsar fleiri muni brenna á félagsmönnum FA á fyrsta félagsfundi haustsins, sem verður haldinn þriðjudaginn 8. september kl. 8.30 til 10. Gestur fundarins er Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu.

Þórarinn hefur oft áður haldið líflega og gagnlega fyrirlestra á félagsfundum FA. Hann var skipaður varaseðlabankastjóri peningastefnu í upphafi árs, en hefur verið aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabankans frá árinu 2009 og nefndarmaður í peningastefnunefnd bankans. Áður starfaði hann m.a. sem forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs og sem deildarstjóri hagrannsókna. Þá hefur hann um árabil ritstýrt Peningamálum þar sem Seðlabankinn gerir grein fyrir mati sínu á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum. Þórarinn býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum.

Morgunverðarfundurinn er haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda í Skeifunni 11 (á 3. hæð, gengið inn á jarðhæð á milli Lyfju og Zo-on). Léttur morgunverður er í boði á fundinum. Skráning er nauðsynleg hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá sent fundarboð með góðum fyrirvara.

Skráning á morgunverðarfund um efnahagshorfur 8. september 2025

Nýjar fréttir

Innskráning