Varhugavert að láta stuðningsaðgerðir fjara út um áramótin

30.11.2021

Félag atvinnurekenda fagnar því að frumvarp til fjárlaga næsta árs beri vott um bata í efnahagslífinu eftir þá dýfu sem hagkerfið tók vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Félagið telur hins vegar varhugavert að á sama tíma og sóttvarnalæknir boðar að grípa geti þurft til frekari ferða- og samkomutakmarkana vegna nýs afbrigðis veirunnar, sé í frumvarpinu gert ráð fyrir að flestar stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki fjari út um áramótin.

Flestar ráðstafanir fjara út
FA sendi fjármálaráðherra erindi í lok október og benti á að þótt atvinnulífið hefði náð sér vel á strik með afléttingu samkomutakmarkana og minnkandi hömlum á landamærunum sýndi þróun faraldursins, jafnt hér á landi og á heimsvísu, að óvissa um framhaldið væri áfram mikil. Sums staðar í nágranna- og markaðslöndum Íslands hefðu samkomutakmarkanir verið hertar á ný og áfram mætti búast við truflunum á ferðalögum. Markaðir ýmissa fyrirtækja, jafnt í þjónustu- og vöruútflutningi, væru því áfram í óvissu. FA benti þá á að ýmis stuðningsúrræði, sem hefðu reynst fyrirtækjum vel, myndu bráðlega renna sitt skeið og nefndi eftirfarandi dæmi:

  • Lagaákvæði um stuðning við fyrirtæki vegna launagreiðslna til starfsmanna í sóttkví taka til launagreiðslna sem inntar eru af hendi til og með 31. desember 2021.
  • Reglugerðarákvæði um átakið Hefjum störf, þar sem fyrirtæki geta ráðið starfsfólk með styrk frá Vinnumálastofnun, falla úr gildi um áramót.
  • Viðspyrnustyrkir giltu út nóvember.
  • Frestun gjalddaga staðgreiðslu launa og staðgreiðslu tryggingagjalds gildir eingöngu út árið.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir endurnýjun á lagaákvæðum um ýmis mikilvæg úrræði. Þannig er gert ráð fyrir að tímabundin lækkun tryggingagjalds renni sitt skeið um áramótin. Í greinargerð frumvarpsins segir: „Dregið verður úr tímabundnum mótvægisráðstöfunum tengdum kórónuveirufaraldrinum en í samræmi við dvínandi áhrif hans á efnahagsumsvif og forsendur fjármálaáætlunar fjara flestar ráðstafanir út í lok árs 2021 að frátöldu fjárfestingarátaki.“ Þó er boðað að niðurfelling gistináttaskatts gildi til ársloka 2023.

Þarf að halda úrræðum opnum
Nú þegar við blasir að stjórnvöld kunna enn á ný að setja reglur, sem setja hömlur á starfsemi fyrirtækja og takmarka tekjumöguleika þeirra, telur FA að halda þurfi því opnu með framlengingu lagaákvæða eða nýrri löggjöf að fyrirtæki geti áfram þurft á stuðningi að halda vegna þróunar faraldursins, til dæmis vegna tekjufalls í tiltekinn tíma af völdum faraldursins og sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. „Það er ástæða til þess að halda stuðningsúrræðum áfram opnum. Best er auðvitað ef fyrirtækin þurfa ekki á þeim að halda, en í ljósi þeirrar óvissu sem áfram er um þróun faraldursins er skynsamlegt að búa þannig um hnúta að hægt sé að bregðast við áföllum með sveigjanlegum hætti, í stað þess að löggjafinn sé alltaf nokkrum skrefum á eftir,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Nýjar fréttir

Innskráning