Félag atvinnurekenda og Creditinfo stóðu í morgun fyrir gagnlegum fræðslufundi um varnir gegn svikastarfsemi. Farið var yfir hvernig óprúttnir aðilar nýta sér félög á fyrirtækjaskrá til að stofna til reikningsviðskipta við fyrirtæki til að svíkja út vörur. Eitt slíkt mál hefur verið í fréttum að undanförnu, en FA lagði lögreglunni lið við rannsókn þess eftir ábendingar frá félagsmönnum.
Á fundinum fóru Kári Finnsson viðskiptastjóri og Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, yfir leiðir til að koma í veg fyrir svikastarfsemi og hvernig nota má gögn frá Creditinfo til að taka ákvörðun um nýja viðskiptavini. Segja má að boðskapur fundarins hafi kristallast í setningunni „byggjum ákvarðanir á gögnum fremur en huglægu mati.“ Horfa má á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan. Hér má ennfremur nálgast glærur frá fundinum.