Vaxandi vandi í boði stjórnvalda

21.09.2023

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 21. september 2023

Í forsíðufrétt Morgunblaðsins mánudaginn 18. september var haft eftir Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, að undanþágulyf væru vaxandi vandamál á Íslandi. Ávísunum undanþágulyfja hefur fjölgað mjög á undanförnum árum, vegna þess að viðkomandi lyf hefur ekki fengizt markaðssett hér á landi eða lyf með sambærilega virkni vantar. 

Lítið úrval lyfja á Íslandi
Í fréttinni er haft eftir forstjóra Lyfjastofnunar að stofnunin reyni að vinna að því að fleiri lyf séu markaðssett á Íslandi, en í blaðinu þennan dag kemur fram að árið 2020 hafi 3.556 vörunúmer lyfja verið markaðssett á Íslandi, samanborið við t.d. 14.859 í Svíþjóð. Á mannamáli þýðir þetta að Íslendingar hafa aðgang að miklu fábreyttara úrvali lyfja en íbúar nágrannalandanna. Rúna segir að í haust ætli Lyfjastofnun af stað með „skoðanakönnun að norskri fyrirmynd hjá markaðsleyfishöfum um hvað það sé sem komi í veg fyrir að lyf séu markaðssett.“

Ástæðurnar liggja ljósar fyrir
Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu sama dag kom fram að ástæður mikillar fjölgunar undanþágulyfja væru „óljósar“. Að mati Félags atvinnurekenda er ekkert óljóst við það – og það þarf enga skoðanakönnun hjá markaðsleyfishöfum til að komast að því hvað þeir setja fyrir sig. FA hefur fyrir hönd félagsmanna sinna ítrekað komið því á framfæri við heilbrigðisyfirvöld að það er stefna stjórnvalda í lyfjamálum sem er stærsti skýringarþátturinn í því að ýmis ný lyf fást ekki markaðssett á Íslandi og ávísa þarf undanþágulyfjum. Fjölgun undanþágulyfja er bein afleiðing þessarar stefnu, sem snýr annars vegar að verðlagningu lyfja og hins vegar að kostnaði við skráningu þeirra.

Á Íslandi gildir sú regla að hámarksheildsöluverð sjúkrahúslyfja miðast við lægsta verð í norrænum ríkjum. Hún tók gildi árið 2009, eftir bankahrunið, en áður hafði verið miðað við meðalverð á Norðurlöndunum. Hvað varðar almenn lyf, sem eru seld í apótekum, gildir að hámarksverðið sé meðalverð í norrænu ríkjunum – sem eru margfalt stærri markaðir en Ísland.

Gjaldskrá Lyfjastofnunar er annar skýringarþáttur. Kostnaður við skráningu lyfja er langtum hærra hlutfall veltu en annars staðar á Norðurlöndum. Ætla má að velta 20-30% skráðra lyfja standi í raun undir skráningargjöldum, en í 70-80% tilvika gerir hún það ekki.

Þetta samspil ósjálfbærrar verðlagningar og hás kostnaðar er það sem fælir erlenda lyfjaframleiðendur frá því að skrá og markaðssetja lyf á Íslandi.

Það sem átti að spara veldur kostnaði
Afleiðingin af þessu er að mörg ný lyf með bætta virkni eru ekki skráð eða markaðssett á Íslandi. Það sama á við um ný lyf sem eru ýmist annaðhvort beinlínis ódýrari í notkun en eldri lyf (til dæmis samheitalyf) eða eru til muna hagkvæmari fyrir heilbrigðis- og velferðarkerfið vegna bættrar virkni, sem stuðlar að því að fólk komist í virkni og vinnu, í stað þess að þiggja bætur og sækja margs konar dýra þjónustu til ríkisins. Þau lyf spara því stórar fjárhæðir annars staðar í kerfinu þótt þau kunni að vera dýrari en eldri lyf.

Stefnubreyting er þannig nauðsynleg, eigi að vera hægt að fækka undanþágulyfjum og nýta um leið miklu betur það fé, sem er til ráðstöfunar til  heilbrigðismála.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning