Veik vísindaleg rök fyrir frystiskyldunni

15.12.2017

Ólafur Valsson, annar höfunda skýrslu sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda um heilbrigðisáhættu vegna innflutnings búvara, var meðal frummælenda á málþingi Landbúnaðarháskóla Íslands og Bændasamtakanna sem haldið var á Hvanneyri í lok nóvember. Á málþinginu var fjallað um afleiðingar dóms EFTA-dómstólsins, um að bann við innflutningi á fersku kjöti og eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk brjóti í bága við EES-samninginn. Fjallað er um málþingið í Bændablaðinu, sem kom út í gær.

Ólafur Valsson greindi á málþinginu frá aðferðunum við vinnslu skýrslunnar og efni hennar. Við skýrslugerðina var stuðst við skýrslur opinberra stofnana og áhrif innflutnings metin samkvæmt EES-löggjöf. Í skýrslunni var lagt upp með að sömu reglur gildi á öllu EES.

Ólafur fjallaði á fundinum um svokallaðar viðbótartryggingar varðandi salmonellasmit sem hin norrænu ríkin fara fram á vegna innflutnings kjöts, einkum fuglakjöts. Vörunni þarf þá að fylgja vottorð um að hún sé laus við smit. Það er gert á þeim grunni að það er viðurkennt að það er betri staða í þessum löndum hvað salmonellusmit varðar en í öðrum löndum. Að sögn Ólafs ætti Ísland að skoða það að fara sömu leið og sækja um sams konar viðbótarákvæði, að því er fram kemur í umfjöllun Bændablaðsins.

Ólafur ræddi líka um útbreiðslu á sýklalyfjaónæmi og sagði að það geti smitast með margvíslegu móti; þó hefði verið sýnt fram á það í Danmörku að tiltekin baktería á svínabúum (MÓSA) hefði smitast í mannfólk að mestu leyti með beinni snertingu við lifandi dýr. Hann sagði að margt væri vitað um smitleiðir en einnig margt sem ætti ennþá eftir að rannsaka. Hugsanlega væri umhverfið vanmetið og rannsaka þyrfti frekar smitleiðir þar – til dæmis skólp- og frárennslismál.

Í umfjöllun Bændablaðsins er haft eftir Ólafi að frystiskylda eins og sú sem hér hefur verið í gildi varðandi innflutt kjöt hafi lítil ef nokkur áhrif á smitefni sem borist geta með kjöti, nema helst kampýlóbakter – og því séu veik vísindaleg rök fyrir frystiskyldunni. Helstu rökin væru þá það svigrúm sem fengist, ef upplýsingar um smit í vörunni kæmu fram á þeim tíma sem frystitíminn stæði yfir.

„Samanburður við Noreg, sem hefði um árabil fylgt reglum EES – og hefði ekki undanþágu frá innflutningi á lifandi dýrum – gæfi ekki til kynna að ástæða sé til að óttast áðurnefndan innflutning. Ólafur lagði mikla áherslu á að það færi fram ný áhættugreining á Íslandi um hættuna sem innflutningur, samkvæmt úrskurði EFTA-dómstólsins, hefði í för með sér. Einnig talaði hann um mikilvægi þess að almenningur væri upplýstur um rétta meðferð kjöthráefna til að forðast smit,“ segir í umfjöllun Bændablaðsins.

Bændablaðið 14. desember 2017

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning