Vel heppnað indverskt-íslenskt viðskiptaþing

02.10.2023

Félag atvinnurekenda tók þátt í skipulagningu indversk-íslensks viðskiptaþings, sem haldið var á Grand hóteli síðastliðinn föstudag. Að þinginu stóðu Íslensk-indverska viðskiptaráðið (ÍIV), sem FA rekur, Íslandsstofa, sendiráð Indlands á Íslandi og Indversk-íslensku viðskiptasamtökin, IIBA. Viðskiptaþingið heppnaðist einkar vel; það sóttu yfir 100 manns frá báðum löndum, indversk fyrirtæki sýndu vörur sínar og fulltrúar íslenskra og indverskra fyrirtækja höfðu tækifæri til að tengjast og ræða saman í kaffihléum og hádegismat.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði þingið, en auk hans tóku til máls B. Shyam, sendiherra Indlands, Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, Prasoon Dewan, formaður IIBA, Edda Björk Ragnarsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Carbfix, Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, og Jóhann Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvotech.

Líflegar umræður urðu ennfremur um möguleikana í viðskiptum Íslands og Indlands á milli þátttakenda í pallborði og gesta viðskiptaþingsins. Í pallborðinu voru, auk Bala Kamallakharan og Prasoon Dewan, Dr. Suninder Singh Arora frá Batra Hospital, Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta hjá Icelandair, og Manish Maheshwari, stjórnarformaður Invenire Energy. Fundarstjóri var Anisha Tomar, næstráðandi í sendiráði Indlands.

Hér að neðan eru myndir frá viðskiptaþinginu.

Nýjar fréttir

Innskráning