Mörg tækifæri til að auka viðskiptin

07.09.2016
Vimon Kidchob, sendiherra Taílands.
Vimon Kidchob, sendiherra Taílands.

Mörg tækifæri eru til að auka viðskipti Íslands og Taílands. Sóknarfæri eru á sviði samstarfs um jarðhitavirkjanir, í ferðaþjónustu, viðskiptum með matvæli og í útflutningi á tæknibúnaði. Þetta kom fram á málþingi um tækifæri í viðskiptum Íslands og Taílands í gær. Málþingið var vel sótt, en í lok þess fór fram stofnfundur Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins.

Félag atvinnurekenda og sendiráð Taílands í Kaupmannahöfn gengust fyrir málþinginu í sameiningu. Vimon Kidchob, sendiherra Taílands í Kaupmannahöfn, sem jafnframt fer með fyrirsvar gagnvart Íslandi, opnaði málþingið.

Pólitískar og efnahagslegar umbætur í Taílandi eiga að halda landinu í fremstu röð meðal ríkja heims hvað samkeppnishæfni varðar, að því er fram kom í máli Songpol Sukchan, yfirmanns Evrópudeildar taílenska utanríkisráðuneytisins.

Tvöfalt meira flutt inn en út
Í máli Unnar Orradóttur Ramette, sviðsstjóra viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, kom fram að viðskipti milli Íslands og Taílands væru enn frekar lítil, en möguleikarnir miklir. EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, stefndu að því að taka upp í náinni framtíð fríverslunarviðræður við Taíland, sem hefðu legið niðri um skeið. Unnur sagði að verðmæti vöruútflutnings til Taílands í fyrra hefði numið um milljarði króna, en innflutningurinn verið tvöfalt meiri, eða um tveir milljarðar. Mikil tækifæri lægju í þjónustuviðskiptum milli landanna, ekki síst ferðaþjónustu. Stefnt væri að endurnýjun loftferðasamnings ríkjanna frá 1957.

Í lok málþingsins var móttaka með Taílenskum mat.
Í lok málþingsins var móttaka með taílenskum mat.

Unnur sagðist telja að íslensk fyrirtæki gætu aukið útflutning sjávarafurða til Taílands og þá lægju tækifæri í sölu á alls kyns búnaði til vinnslu og pökkunar matvæla til taílenska matvælageirans. Ennfremur væru augljósir samstarfsfletir varðandi áformaða uppbyggingu jarðvarmavirkjana í Taílandi.

Hægt að fjölga ferðamönnum
Ketsuda Supradit, efnahags- og viðskiptafulltrúi Taílands í Bretlandi, fjallaði um efnahagsumhverfið í Taílandi og hvers vegna fyrirtæki ættu að fjárfesta í taílensku atvinnulífi.

Þá kynnti Pakkanan Winijchai, ferðamálafulltrúi Taílands í Stokkhólmi, taílenska ferðaþjónustu. Um 2.800 Íslendingar lögðu leið sína til Taílands í fyrra og hefur farið fjölgandi. Taldi Pakkanan að mikil sóknarfæri væru í að fjölga íslenskum ferðamönnum til Taílands. Hún sagði frá því að taílensk ferðaþjónusta legði nú meiri áherslu en áður á gistingu og mat í hærri gæðaflokkum, sem ætti að draga efnaðri ferðamenn til landsins.

IMG_2629
Alfreð Jóhannsson, sölustjóri hjá ÓJ&K.

Alfreð Jóhannsson, sölustjóri hjá Ó. Johnson og Kaaber, fjallaði um markaðinn fyrir taílenska matvöru á Íslandi og vaxandi vinsældir taílenskrar matargerðar. Hann ræddi meðal annars um þau tækifæri sem fælust í gífurlegri fjölgun ferðamanna, með tilheyrandi fjölgun veitingahúsa og vaxandi eftirspurn eftir taílenskum mat.

Fundarsalur FA var troðfullur, enda fjölmenn viðskiptasendinefnd frá Taílandi meðal gesta. Íslensk fyrirtæki sýndu málþinginu jafnframt mikinn áhuga.

 

 

Glærur Songpol Sukchan

Glærur Ketsuda Supradit

Glærur Alfreðs Jóhannssonar

Glærur Pakkanan Winijchai

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning