Stjórn Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, sem FA rekur, tók í morgun á móti fjölmennri viðskiptasendinefnd frá Shandong-héraði í Kína. Rætt var sérstaklega um viðskipti með matvörur á milli ríkjanna, en Shandong flytur út mikið af búvörum. Þá sýndu kínversku gestirnir íslenskum matvörum; sjávarafurðum, lambakjöti og jafnvel jurtatei, mikinn áhuga.
Síðdegis gekkst ÍKV fyrir málþingi um matvöruviðskipti milli Íslands og Kína ásamt Shandong-deild China Chamber of Commerce of Foodstuffs and Native Produce (CFNA). Þingið sóttu fulltrúar um 25 íslenskra fyrirtækja og samtaka og rúmlega 30 fyrirtækja frá Shandong-héraði, auk fulltrúa kínverskra stjórnvalda.