Verða nikótínaðvaranir á nikótínlausu rafrettunum?

15.03.2018

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um rafrettur gengur enn lengra en frumvarp forvera hennar, Óttarrs Proppé, að því leyti að það gerir ráð fyrir takmörkunum á notkun rafrettna og viðskiptum með þær, hvort sem þær innihalda nikótín eða ekki. Afleiðingarar eru skringilegar, þannig virðast ákvæði frumvarpsins þýða að setja verði á nikótínlausar rafrettur merkingar um að þær innihaldi nikótín!

Þetta er á meðal þeirra mörgu atriða í frumvarpinu sem Félag atvinnurekenda gagnrýnir í umsögn sinni til Alþingis. FA bendir á að fjölmörg ákvæði frumvarpsins ganga lengra en Evróputilskipunin, sem því er ætlað að innleiða, án þess að rökstutt sé hvers vegna nauðsynlegt sé að ganga lengra í inngripum í viðskipta- og athafnafrelsi fólks. Þar á meðal eru ákvæðin um bann við sýnileika rafrettna í verslunum, ákvæði um takmarkanir á notkun þeirra sem leggja rafrettur að öllu leyti að jöfnu við sígarettur og áðurnefnd ákvæði um að lögin taki einnig til rafrettna sem innihalda ekki nikótín.

Órökstudd víkkun á gildissviðinu
Hvað varðar ákvæðin um að lögin nái til rafrettna án nikótíns, bendir FA á að sú breyting frá fyrra frumvarpi og ákvæðum Evróputilskipunarinnar er ekki rökstudd með neinum hætti. Þetta skapi ýmis vandkvæði. Til dæmis séu takmarkanir á stærð áfyllinga af nikótínvökva látnar gilda líka um nikótínlausan rafrettuvökva, en hann er almennt seldur í mun stærri umbúðum en nikótínvökvi. „Það liggur í augum uppi að strangari reglur hér á landi en annars staðar skapa verulegt óhagræði fyrir söluaðila rafrettna og neytendur. Þá má jafnframt benda á umhverfisleg áhrif þessa, en vökvinn er alla jafna í plastflöskum. Þannig myndu 10 stykki af 10 ml plastflöskum falla til í stað einnar 100 ml flösku,“ segir í umsögninni.

Önnur tveggja viðvarana sem tilskipun Evrópusambandsins kveður á um.

Vegna þess að Evróputilskipunin nær eingöngu til rafrettna með nikótíni, gerir hún eingöngu ráð fyrir að varúðarmerkingar á vörunni vari við því að hún innihaldi nikótín.

„Vandséð er af hverju takmarka á notkun nikótínlausra rafrettna með sama hætti og notkun rafrettna með ávanabindandi efninu nikótíni. Það er fortakslaus krafa af hálfu FA að stjórnvöld rökstyðji íþyngjandi kröfur sem settar eru á atvinnulífið með fullnægjandi hætti; af hverju þær eru nauðsynlegar, hverju á að ná fram með þeim og af hverju þörf er á því að ganga lengra en tilskipunin mælir fyrir um,“ segir í umsögn FA.

Hömlur styrkja stöðu sígarettunnar

Líkt og í umsögn sinni um fyrra rafrettufrumvarpið, vekur FA athygli á því að rafrettur geti verið mikilvægt tæki til að hjálpa fólki að hætta að reykja, enda langtum minna hættulegar en sígarettur. „Erfitt er að sjá hvernig neytandi á að fá vitneskju um og frekari upplýsingar um rafsígarettur þegar bæði auglýsinga- og sýnileikabann gilda um vöruna,“ segir í umsögn FA.  „Hægt er að taka undir það að gæta beri að því að varan sé aðallega notuð í þeim tilgangi að hætta að reykja. Hins vegar verður reykingafólk að geta fengið upplýsingar um vöruna svo það a.m.k. íhugi að skipta yfir í skaðlausari vöru en sígarettuna. Aukin neysla rafrettna hlýtur að teljast jákvæð ef hún orsakast af minni neyslu sígarettna.“

FA bendir á að undanfarin ár hafa ýmsar skaðaminnkandi tóbaks- og nikótínvörur, sem stuðlað geta að því að draga úr reykingum, komið á markað. „Eigi að vera hægt að útskýra fyrir neytendum hvernig þær virka, hvers vegna þær fela í sér minni skaða og hvernig á að nota þær, krefst það þess að hægt sé að sýna og fjalla um vöruna. Allir vita hins vegar hvernig á að nota sígarettu. Sú takmörkun á aðgengi og upplýsingum um rafsígarettur sem frumvarpið felur í sér styður þess vegna við sterka stöðu sígarettunnar á markaði; vörunnar sem óumdeilt er sú skaðlegasta í hópi tóbaks og tengdra vara.“

Umsögn FA um rafrettufrumvarpið

Viðtal við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA á Bylgjunni

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning