Verðbólga og vinnumarkaður

07.07.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 7. júlí 2023

„Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika í verðlagi og vöxtum,“ sagði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem tók við völdum í nóvember 2021. Síðan hefur verðbólgan farið úr 4,8% í 8,9% og meginvextir Seðlabankans úr 2% í 8,75%, þannig að þetta lykilverkefni gengur ekkert of vel.

Tvö mál sem snúa að vinnumarkaðnum hefur ríkisstjórnin látið ósnert. Enn vantar upp á að ríkisfjármálin styðji nægilega við peningastefnu Seðlabankans. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvatti þannig nýlega til að aðhald í ríkisfjármálum yrði enn hert. Félag atvinnurekenda og margir fleiri, sem veittu umsögn um ríkisfjármálaáætlun, hafa bent á að aðhaldið á gjaldahlið ríkissjóðs er ekki nægilegt.

Gríðarlegri fjölgun opinberra starfsmanna hefur ekki verið snúið við. Þótt laun starfsmanna stjórnsýslunnar séu orðin sambærileg og á almenna vinnumarkaðnum, lífeyrisréttindin þau sömu til framtíðar og vinnutíminn þægilegri, njóta opinberir starfsmenn enn sérréttinda í formi uppsagnarverndar og þungs regluverks í kringum ráðningu og starfslok. Þetta gerir rekstur hins opinbera þungan í vöfum og sparnaðar- og aðhaldsaðgerðir erfiðar í framkvæmd, af því að það er mjög erfitt að segja fólki upp. Afnám sérréttinda ríkisstarfsmanna er ein forsenda þess að hægt sé að spara í rekstri ríkisins og vinna þannig gegn verðbólgu.

Hitt málið er að styrkja embætti ríkissáttasemjara, sem var sett niður sem markmið í stjórnarsáttmálanum. Eftir uppnámið í kringum verkfall Eflingar í byrjun ársins blasir við að skýra þarf löggjöfina og veita sáttasemjaraembættinu ótvíræðar heimildir til inngripa með svipuðum hætti og gerist í nágrannalöndunum, til þess að stéttarfélög sem gera allsendis óraunhæfar kröfur geti ekki haldið samfélaginu í gíslingu vikum saman.

Í þessum málum hefur ríkisstjórnin ekkert gert – en hún þarf að gera það ef hún ætlar að vinna að stöðugleika í verðlagi og vöxtum.

Nýjar fréttir

Innskráning