„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 9. júlí 2020.
Tollar hækkuðu í byrjun mánaðarins á nokkrum grænmetistegundum, t.d. gulrótum, kínakáli og spergilkáli. Þetta eru verndartollar, hugsaðir til að vernda innlenda framleiðslu fyrir erlendri samkeppni. Verðhækkunin er mikil; á vörurnar leggst 30% verðtollur og að auki magntollar upp á 136-282 krónur á hvert kíló. Útsöluverðið getur tvöfaldazt og gott betur.
Þetta er vondur díll fyrir neytendur og verður öllu verri þegar rennur upp fyrir fólki að innlenda framleiðslan, sem meiningin er að vernda, er bara alls ekki til á þessum árstíma. Eitthvað örlítið er væntanlegt af íslenzkum gulrótum í búðirnar en ekki nándar nærri nóg til að svara eftirspurn verzlana, og einhverjar vikur eru í uppskeruna af kína- og spergilkáli.
Undanfarin ár hefur mátt bjarga svona stöðu með því að landbúnaðarráðherrann gefi (með semingi) út svokallaðan skortkvóta, þ.e. heimild til að flytja inn vörur á lægri tollum vegna ónógs framboðs á innlendri vöru. Í fyrra flutti ráðherrann hins vegar frumvarp, þar sem heimildin til útgáfu skortkvóta var felld út, en þess í stað lagt til að tollar féllu niður á tilteknum tímabilum. Þau voru heldur þröngt skilgreind og Félag atvinnurekenda lagði til að innflutningsheimildirnar yrðu rýmkaðar verulega. Í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis tókst hins vegar ekki betur til en svo að tollfrjálsu tímabilin voru þrengd verulega.
Nefndin vildi til dæmis hafa tolla á kartöflum allt árið, þrátt fyrir reynsluna af kartöfluskorti undanfarin vor. Á þeim skorti byrjaði að bera í apríl síðastliðnum, en fréttir af nýrri kartöfluuppskeru í Hornafirðinum bárust ekki fyrr en í gær.
Þessi dæmalaust vitlausa staða; að lagðir séu á verndartollar sem vernda ekki neitt, er í boði Alþingis. Landbúnaðarráðherrann ætti nú að leggja til við þingið að laga vitleysuna áður en dæmunum um slíkt fjölgar enn meira.