Verður „þjóðarsamtalið“ um búvörusamninga þrengt á ný?

28.12.2017

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að leggja niður samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga, sem starfað hefur undanfarin misseri, og hyggst skipa nýjan hóp með sjö fulltrúum í stað þrettán.

„Tryggt verður að störf hópsins endurspegli áform búvörulaga um „aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni“,“ segir í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins um málið. „Samráðshópnum verður sett erindisbréf sem tekur mið af þeim umræðum sem fram fóru á Alþingi þegar gildandi búvörulög voru samþykkt og þeim áherslum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi ákvörðun ráðherrans veki ýmsar spurningar. Hann rifjar upp að starfshópurinn um endurskoðun búvörusamninga hafi orðið til eftir að búvörusamningar ríkisins og Bændasamtakanna urðu fyrir mjög harðri gagnrýni úr öllum áttum í samfélaginu. Stofnun hópsins var af hálfu þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar hugsuð til að efna til „þjóðarsamtals“ og skapa „þjóðarsátt“ um greinina eins og Jón Gunnarsson, þáverandi formaður nefndarinnar, orðaði það.

Niðurstaða Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi landbúnaðarráðherra, var hins vegar að skipa hóp þar sem viðsemjendurnir, þ.e. ríkið og landbúnaðurinn, áttu tvo þriðjuhluta fulltrúanna. Félagi atvinnurekenda, sem hafði af hálfu þáverandi formanns atvinnuveganefndar verið heitið aðild að þjóðarsamtalinu, var haldið utan við. Arftaki Gunnars Braga, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, breikkaði hins vegar hópinn og þar með samtalið.

„Hvernig skyldi Kristján Þór Júlíusson ætla að viðhalda breidd í samtalinu með því að fækka í hópnum um hartnær helming? Og ætli hann endurtaki þann leik að halda þeim samtökum sem hafa talað hvað einarðlegast fyrir auknu frelsi og samkeppni í landbúnaðinum utan við samtalið?“ spyr Ólafur Stephensen.

 

Nýjar fréttir

Innskráning