Verndartollar fyrir rafmagnsframleiðslu?

25.04.2019
Það er kjúklingur í kvöldmatinn. Af hverju er hærri tollur á kjúklingabringum sem er búið að elda en bringum sem neytandinn þarf að elda sjálfur?

Tollar á innfluttum kjúklingabringum eru talsvert hærri ef þær eru foreldaðar en ef þær eru fluttar inn hráar. Engin skynsamleg rök skýra muninn, segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Foreldaðar kjúklingabringur, sem njóta mikilla vinsælda hjá neytendum, bera hærri tolla en hráar kjúklingabringur (báðar vörur eru seldar frosnar í verslunum). Síðarnefndu bringurnar bera 30% verðtoll auk 900 króna magntolls, sem er föst krónutala á kíló. Svo dæmi sé tekið þýðir það að ef innflutningsverð á hráum kjúklingabringum er 1.000 krónur á kíló bera þær 300 króna verðtoll og 900 króna magntoll, samtals 1.200 krónur.

Ef bringurnar koma frá aðildarríki Evrópusambandsins bera þær 18% verðtoll og 540 króna magntoll, samtals 720 krónur í tolla ef innflutningsverðið er 1.000 krónur. Samið var um lægri tolla á ýmsum kjötvörum við Evrópusambandið í tvíhliða samningi árið 2007. Hann nær hins vegar ekki til eldaðra kjötvara.

Foreldaðar bringur bera 30% verðtoll og 1.144 króna magntoll. Svo aftur sé tekið dæmi um vöru á innflutningsverðinu 1.000 krónur á kíló, ber hún samtals 1.444 króna toll við innflutning.

Vara Tollflokkur Innflutningsverð  Verðtollur Magntollur, kr./kg Tollar samtals
Hráar kjúklingabringur 0207.1401 1.000 kr. 300 kr. 900 kr. 1.200 kr.
Hráar bringur frá ESB 0207.1401 1.000 kr. 180 kr. 540 kr. 720 kr.
Foreldaðar kjúklingabringur 1602.3201 1.000 kr. 300 kr. 1.144 kr.  1.444 kr.

„Þetta er eitt dæmi af mörgum um furðuleg höft á innflutningi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að vara beri misháa tolla eftir því hvort hún er flutt inn elduð eða hrá. Tollar á mat eru einu tollarnir, sem eftir standa í íslensku tollskránni. Þeir eru rökstuddir með því að verið sé að vernda íslenskan landbúnað fyrir samkeppni. Það verður ekki séð að viðbótartollur á eldað kjöt verndi neitt nema þá kannski innlenda rafmagnsframleiðslu sem seint verður talin til landbúnaðar.“

Tímabært að einfalda tollskrána
Ólafur segir að FA sé kunnugt um að innflutningsfyrirtæki hyggist láta á þessa skattheimtu reyna fyrir dómstólum. „Þessir misháu tollar eru augljóslega brot á jafnræðisreglu, hamla samkeppni og skerða atvinnufrelsi. Það er löngu orðið tímabært að setjast yfir tollskrána, einfalda hana til muna og vinsa úr henni alls konar furðutolla sem ekki verður séð að þjóni neinum tilgangi. Það má til dæmis rifja upp að enn er lagður 76% ofurtollur á innfluttar franskar kartöflur, en hann verndar aðallega eitt eða tvö iðnfyrirtæki sem framleiða franskar kartöflur, að stærstum hluta úr innfluttu hráefni,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning