Framkvæmdastjóri FA hefur gagnrýnt í fjölmiðlum skort á samráði við atvinnulífið vegna vetrarfría grunnskóla og skipulagsdaga í grunnskólum og leikskólum.
„Vetrarfríið hefur alltaf verið ákveðið vandamál. Það kemur á tíma þar sem oft er mikið að gera í fyrirtækjum og í staðinn fyrir að búa til ánægjulegar samverustundir með fjölskyldunni, eins og er vafalaust markmiðið, þá býr þetta í ýmsum tilvikum til stress, vesen og leiðindi,“ segir Ólafur Stephensen í samtali við mbl.is.
Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni gagnrýndi Ólafur jafnframt fyrirkomulag skipulagsdaga í grunn- og leikskólum, en foreldrar neyðast oft til að taka sér frí á slíkum dögum. „Það kemur fólki í atvinnulífinu spánskt fyrir sjónir að skólar séu eina sortin af fyrirtækjum þar sem er ekki hægt að halda uppi þjónustu af því að það er verið að skipuleggja vinnuna. Við hin búum bara ekkert við þann lúxus,“ sagði Ólafur.