Viðskiptafrelsi og samkeppni á viðsjárverðum tímum

28.12.2022

Áramótagrein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, 28. desember 2022.

„Verðlag á mat er einn þáttur fæðuöryggis og öfugsnúið að enn skuli vera talað eins og að það að gera mat dýrari efli fæðuöryggið.“

Heimsfaraldur og styrjöld í Evrópu settu mark sitt á verzlun og viðskipti á árinu sem nú rennur skeið sitt á enda. Hikstar í aðfangakeðjum, fyrst vegna faraldurs og svo vegna stríðsins í Úkraínu, settu fjölda fyrirtækja í vanda og verð á flestum aðföngum hefur hækkað mikið. Það er til marks um að íslenzk innflutningsverzlun hefur reynzt vandanum vaxin að t.d. hækkanir á matvöruverði hafa verið langtum minni á árinu en í flestum öðrum Evrópuríkjum.

Faraldur og stríð hafa gefið okkur tilefni til að endurhugsa eitt og annað í viðskiptum Íslands við umheiminn. Það er til dæmis full ástæða til að gefa betur gaum atriðum eins og öryggi aðfangakeðja og aðgangi að neyðarbirgðum á viðsjárverðum tímum. Það hefur hins vegar borið á því að hagsmunaöfl sem hafa lengi talað fyrir verndarstefnu í þágu sérhagsmuna hafa tekið óvissu í heimsmálunum fegins hendi sem skálkaskjóli fyrir að ná fram markmiðum um viðskipta- og samkeppnishömlur.

Enn tala til dæmis sumir stjórnmálamenn fyrir því að vinda ofan af fríverzlun við Evrópusambandið með búvörur í þágu „fæðuöryggis“. Þótt engin framleiðsla sé lengur á frönskum kartöflum á Íslandi gekk erfiðlega að fá ráðherra ríkisstjórnarinnar til að fallast á að þá mætti afnema 76% verndartoll á frönskum kartöflum. Verðlag á mat er einn þáttur fæðuöryggis og öfugsnúið að enn skuli vera talað eins og að það að gera mat dýrari efli fæðuöryggið. Nú þegar fæðuöryggi er orðið raunverulegt viðfangsefni vegna ástandsins í alþjóðamálum en ekki bara orðaleppur sem hagsmunaöfl veifa í eigin þágu verður kannski skýrara í hinni almennu umræðu hversu öfugsnúinn þessi málflutningur er.

Félag atvinnurekenda blandaði sér í umræðuna um lyfjaöryggi, sem kom upp vegna skorts á tilteknum lyfjum. Félagið benti á að stóri skýringarþátturinn þegar kæmi að skorti á lyfjum væri verðstefna stjórnvalda, sem leiðir af sér að alþjóðlegir lyfjaframleiðendur setja einfaldlega ekki ný lyf á markað á Íslandi þótt þau geti verið miklu hagkvæmari en eldri lyf.

FA hefur verið í fararbroddi meðal samtaka í atvinnulífinu í baráttu fyrir því að samkeppni sé sem öflugust og nái til sem flestra atvinnugreina. Félagið lagðist þannig eindregið gegn beiðni talsmanna kjötafurðastöðva um að þær fái undanþágu frá samkeppnislögum af því að það gangi ekki nógu vel í rekstri (sumra) þeirra. Slíkt væri varasamt fordæmi. Félagið benti líka á að fyrirhuguð löggjöf um rýni á erlendum fjárfestingum væri líkleg til að fæla erlenda fjárfesta frá landinu nema að samhliða gildistöku hennar færi fram víðtæk úttekt á regluverki atvinnulífsins með það að markmiði að fækka samkeppnishömlum og draga úr skriffinnsku. Það eru nefnilega ekki sízt slíkir þættir sem valda því að Ísland er í þriðja neðsta sæti OECD-ríkja þegar kemur að hömlum á erlendar fjárfestingar.

Ástand heimsmála hefur fært íslenzku atvinnulífi mörg ný viðfangsefni. Eftir sem áður á leiðarljósið við úrlausn þeirra að vera viðskiptafrelsi og frjáls samkeppni. 

Nýjar fréttir

Innskráning