Íslensk-evrópska viðskiptaráðið stofnað 17. apríl

21.03.2018
Nú stefnir í aukið frelsi í viðskiptum með búvörur á milli Íslands og ESB, vegna tollasamnings aðila og dóms EFTA-dómstólsins.

Athugasemd: Dagsetning málþing og stofnfundar hefur verið færð til 16. maí 2018.

Félag atvinnurekenda áformar að stofna í apríl Íslensk-evrópska viðskiptaráðið til að fjalla um viðskipti milli Íslands og Evrópusambandsins og þrýsta á um að viðskipti samkvæmt EES-samningnum og öðrum samningum Íslands og ESB gangi greiðlega. Stofnfundur verður haldinn 17. apríl, samhliða málþingi um viðskipti Íslands og Evrópusambandsins, sem FA skipuleggur í samstarfi við sendinefnd ESB á Íslandi.

FA rekur nú þegar þrjú millilandaviðskiptaráð; Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, Íslensk-indverska viðskiptaráðið og Íslensk-taílenska viðskiptaráðið.

Úrlausnarefni vegna EES, landbúnaðarsamnings og Brexit
Magnús Óli Ólafsson, formaður FA, segir að tvíhliða viðskiptaráð Íslands og ýmissa aðildarríkja Evrópusambandsins séu starfrækt hér á landi, en full þörf sé á viðskiptaráði sem einblíni á viðskiptasamninga milli Íslands og Evrópusambandsins sem slíks. „Stofnun sérstaks viðskiptaráðs vegna viðskipta Íslands og ESB gefur okkur ekki síst betri aðgang að framkvæmdastjórn ESB og öðrum stofnunum sambandsins. Ýmis mál sem varða þessi viðskipti þarfnast úrlausnar,“ segir Magnús.

Magnús Óli Ólafsson formaður FA

„Í fyrsta lagi er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. Á undanförnum misserum hafa íslensk stjórnvöld ítrekað fengið á sig dóma EFTA-dómstólsins fyrir að innleiða EES-löggjöf of seint. Það er í mörgum tilvikum afar bagalegt fyrir viðskiptalífið, sem á mikið undir því að sömu reglur gildi á Íslandi og í öðrum ríkjum EES. Þá er stutt síðan EFTA-dómstóllinn dæmdi Ísland brotlegt við EES-samninginn vegna banns við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Nokkuð háværar raddir eru um að ekki verði farið að þeim dómi eða reynt að komast framhjá dómsniðurstöðunni með einhverjum hætti. Það er full ástæða til að leitast við að halda stjórnvöldum við efnið; að þau tryggi snurðulausan rekstur EES-samningsins og virði skuldbindingar sínar samkvæmt honum,“ segir Magnús Óli.

Hann bætir við að í öðru lagi muni samningur Íslands og ESB um gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi í maí næstkomandi. „Það er talsverður þrýstingur á íslensk stjórnvöld frá hagsmunaaðilum í landbúnaði að grípa til aðgerða sem vinni gegn ákvæðum þess samnings um aukna fríverslun Íslands og ESB. Það er eðlilegt að fyrirtæki sem eiga mikið undir sem frjálsustum viðskiptum á milli aðila taki á móti og láti líka í sér heyra.“

Í þriðja lagi segir Magnús að ýmis álitamál varðandi viðskipti Íslands og ESB komi upp vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr ESB. „Atriði eins og flutningur íslenskra útflutningsvara í gegnum Bretland til ESB-ríkja munu þurfa úrlausnar við. Mörg aðildarfyrirtæki okkar eiga mikið undir því að engar nýjar hindranir rísi í viðskiptum vegna Brexit.“

Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins

Tilefnislausar viðskiptahindranir enn í gildi
Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, segir að ESB hafi mikla trú á fríverslun sem leið til að örva hagvöxt og bæta hag fyrirtækja og neytenda. „Aðild Íslands að innri markaði ESB hefur fært íslenskum fyrirtækjum mikil viðskiptatækifæri og haft í för með sér minni kostnað og meira úrval fyrir neytendur,“ segir Mann. „Nú stefnir í að viðskipti með mat- og drykkjarvörur eflist enn frekar með nýja landbúnaðarsamningnum sem tekur gildi 1. maí. Hins vegar eru enn tilefnislausar viðskiptahindranir í gildi, sem skaða samkeppnishæfni fyrirtækja og hafa réttindi af neytendum.“

Mann segist vona að Íslensk-evrópska viðskiptaráðið muni vinna að því að allir njóti kosta frjáls markaðar og stuðla að því að ryðja úr vegi reglum og stjórnsýsluframkvæmd sem gangi gegn bæði anda og bókstaf EES-samningsins.

Ráðið opið öllum fyrirtækjum sem hagsmuna eiga að gæta
Magnús Óli segir að líkt og önnur viðskiptaráð á vegum FA verði Íslensk-evrópska viðskiptaráðið opið öllum fyrirtækjum sem hagsmuna eiga að gæta, en ekki eingöngu félagsmönnum FA.

Hann hvetur fyrirtæki, sem hafa áhuga á að gerast stofnfélagar í Íslensk-evrópska viðskiptaráðinu, til að hafa samband við skrifstofu Félags atvinnurekenda.

Hið sama gerir Michael Mann, sem hvetur fyrirtæki úr öllum geirum til að sækja stofnfundinn og stuðla að því að gera fríverslun að veruleika. „Sendinefnd ESB á Íslandi er reiðubúin að gera sitt til að aðstoða fyrirtæki við að tryggja að þau njóti allra kosta innri markaðarins.“

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning