Viðurkenning á mikilvægi einkageirans

30.12.2020

Áramótagrein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum. Spurt var: Hvaða breytingar myndir þú vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?

Fyrir íslenzkt atvinnulíf er mikilvægast að við náum tökum á kórónaveirufaraldrinum með  bólusetningu þorra landsmanna þannig að aflétta megi hömlum og fyrirtæki starfi við eðlilegar aðstæður.

Gera má ráð fyrir að eitthvert framhald verði á stuðningsaðgerðum stjórnvalda við atvinnulífið vegna faraldursins. Félag atvinnurekenda hefur lagt megináherzlu á að slíkar aðgerðir séu almennar og hamli ekki samkeppni. Hingað til virðast stjórnvöld oftast hafa reynt að hafa slík sjónarmið í huga, en í tvö skipti hafa ráðherrar keyrt lengst út í móa; fyrst menntamálaráðherrann með niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri háskólanna síðastliðið sumar og svo landbúnaðarráðherrann með framlagningu frumvarps, sem skerðir samkeppni og hækkar vöruverð á matvælamarkaði.

Stjórnvöld ættu að forðast að falla í fleiri slíkar gryfjur og fremur fylgja fordæmi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem beitti sér fyrir samkeppnismati OECD á ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Út úr þeirri vinnu kom fjöldi tillagna um hvernig megi draga úr samkeppnishömlum fremur en að reisa nýjar og efla samkeppnishæfni fyrirtækja.

Undir lok ársins dró heilbrigðisráðherrann til baka áform um breytingar á verðlagningu lyfja, sem hefðu leitt til þess að fjöldi lyfja hefði verið afskráður af íslenzka markaðnum. Þau áform eru angi af stærra máli; heilbrigðisyfirvöld hafa um árabil haldið uppi opinberri verðstýringu á lyfjum, sem bæði hindrar að ný lyf með bætta virkni séu skráð á Íslandi og dregur úr kostnaðarhagræði í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið. Bráðnauðsynlegt er að endurskoða þessa stefnu.

Í faraldrinum kom vel í ljós hversu mikilvægt hlutverk einkafyrirtæki leika við að tryggja velferð og öryggi landsmanna. Lyfja- og heilbrigðisvörufyrirtæki áttu stóran þátt í að tryggja að nóg væri til af lyfjum, varnarbúnaði og lækningatækjum í mestu farsótt í heila öld. Innflutningsverzlunin sýndi mikla útsjónarsemi til að tryggja fæðuöryggi landsmanna og aðgang að daglegum nauðsynjum. Það væri ánægjuleg breyting að stjórnvöld viðurkenndu mikilvægi einkageirans og hættu að leggja steina í götu fyrirtækja í þessum greinum.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning