Vildarpunktar til ríkisstarfsmanna eru spilling og brot á lögum og siðareglum

23.10.2023

Félag atvinnurekenda hefur ritað forseta Alþingis og fjármálaráðherra erindi í framhaldi af fréttaflutningi um að alþingismenn og aðrir starfsmenn ríkisins fái vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða, sem skattgreiðendur greiða fyrir þá. Forstjóri Ríkiskaupa benti um helgina á að vildarpunktarnir gætu skapað freistnivanda hjá ríkisstarfsmönnum sem væru að bóka flug að „kaupa flugið heldur hjá þeim aðila sem býður þeim möguleikann á hlunnindum sem það getur síðar nýtt til persónulegra nota.“

Í grein Söru Lindar Guðbergsdóttur, forstjóra Ríkiskaupa, kom fram að rammasamningur við íslensku flugfélögin um flugfargjöld ríkisstarfsmanna væri í endurskoðun. „Að mati FA ætti að gera þá kröfu við nýtt útboð að flugfélög sjái til þess að ferðir, sem bókaðar eru innan rammasamningsins, veiti ekki vildarpunkta eða önnur sérkjör, sem ríkisstarfsmenn geta nýtt í persónulega þágu. Ekki ætti að þurfa flókna forritunarvinnu til að koma slíku í kring,“ segir í erindi FA.

Forstjóri Ríkiskaupa segir jafnframt í grein sinni að persónulegur ávinningur eigi ekki og megi ekki hafa áhrif og stofnanir ríkisins þurfi því að brýna fyrir starfsfólki sínu að slíkir hvatar megi ekki hafa áhrif við val á flugferðum. FA bendir á að þetta þýði að sem stendur hvíli ábyrgðin á einstökum ríkisstofnunum.

FA vekur athygli þingforseta og fjármálaráðherra á því að það er ekki aðeins „sjálfsögð krafa“ að þingið og aðrar ríkisstofnanir velji ævinlega hagkvæmasta kostinn þegar valið er flug fyrir starfsmenn. Það að þingmenn og aðrir ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta fyrir að beina viðskiptum til Icelandair eða annarra flugfélaga með tryggðarkerfi sé einfaldlega bæði ólöglegt og fari gegn siðareglum þingsins, siðareglum starfsmanna stjórnarráðsins og almennum siðareglum ríkisstarfsmanna. „Að þiggja þannig persónuleg fríðindi vegna ferða sem skattgreiðendur kosta, heitir spilling og lög og siðareglur eiga að hindra slíkt,“ segir í erindi FA.

Ákvæði hegningarlaga
Í 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir: „Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.“

Í 1. mgr. 128. gr. sömu laga segir: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður] heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Ákvæði siðareglna
Í siðareglum alþingismanna segir, í 11. gr: „Þingmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í starfi sínu og ekki taka við óviðeigandi greiðslu eða gjöf.“

Í siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands frá 3. maí 2012 segir, í gr. 1. f: „Starfsfólk sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna ríkisis og stuðlar að því sama meðal samstarfsmanna.“ Í sömu reglum, gr. 2.d, segir: „Starfsfólk þiggur ekki persónulega verðmætar gjafir vegna starfs síns.“

Í almennum siðareglum starfsmanna ríkisins, sem settar voru af fjármála- og efnahagsráðherra 22. apríl 2013, segir í 3. gr. að ríkisstarfsmönnum beri að „vinna gegn sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna“ og í 11. gr. að þeim beri að „forðast hagsmunaárekstra“.

Stenst ekki lög eða siðareglur
FA beinir því til forseta Alþingis og fjármála- og efnahagsráðherra að þegar í stað verði tekið fyrir að þingmenn og aðrir ríkisstarfsmenn geti þegið vildarpunkta vegna flugferða með Icelandair eða öðrum flugfélögum sem veita vildarpunkta. Núverandi ástand standist augljóslega ekki lög, siðareglur þingmanna og ríkisstarfsmanna eða önnur viðtekin siðferðileg viðmið.

Erindi FA til fjármálaráðherra

Erindi FA til forseta Alþingis

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning