Vilji Alþingis um tollfrjálsa osta skilaði sér ekki í lögin

04.04.2018

Atvinnuvegaráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um nýja tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins, sem tekur gildi 1. maí næstkomandi. Auglýstir eru kvótar fyrir þá átta mánuði, sem eftir eru af árinu, þ.e. tveir þriðju af þeim tollkvótum sem eiga að vera í boði á fyrsta gildisári samningsins. Athygli vekur hins vegar að í auglýsingu ráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir að allur tollkvótinn fyrir svokallaða sérosta, þ.e. osta sem njóta upprunaverndar, t.d. Rochefort eða Parmesan, verði auglýstur á fyrsta gildisári samningsins. Þetta gengur þvert á það sem þáverandi meirihluti atvinnuveganefndar lagði til í því skyni að liðka fyrir samþykkt búvörusamninganna á sínum tíma, sem var að taka alla aukningu á tollkvóta fyrir sérosta inn strax við gildistöku samningsins í stað þess að aukningin kæmi inn í þrepum á fjórum árum. Jón Gunnarsson þáverandi formaður nefndarinnar kallaði þessa ráðstöfun „verulega tilslökun“ á móti hækkun á almennum tollum á osta, sem kveðið var á um í búvörusamningunum. Sú tollahækkun tók gildi í ársbyrjun 2017.

Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar við þriðju umræðu um frumvarpið sem lögfesti búvörusamningana var þetta skýrt: „Meiri hlutinn hefur sammælst um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum, sbr. breytingartillögu nefndarinnar við 65. gr. B búvörulaga við 2. umræðu, þannig að hún komi öll til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Ís­lands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Um er að ræða sérosta sem falla undir vörulið úr 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög og eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinn­ar sérstöðu. Nú er tollkvótinn 20 tonn en verður samkvæmt tillögu meiri hlutans 230 tonn á fyrsta ári samningsins.“

Missa neytendur af 104 tonnum af tollfrjálsum ostum?
Í auglýsingu ráðuneytisins eru hins vegar aðeins auglýst 36,667 tonn af sérostum, tveir þriðjuhlutar þess 55 tonna magns, sem samningur Íslands og ESB kvað upphaflega á um að bættust við ostakvótann á fyrsta ári samningsins. Samkvæmt því sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði til við þingið hefði hins vegar átt að auglýsa 140 tonna tollkvóta fyrir sérostana, eða tvo þriðjuhluta af 210 tonnum. Munurinn er rúmlega 104 tonn.

Félag atvinnurekenda hefur grennslast fyrir um málið hjá atvinnuvegaráðuneytinu og fengið þau svör að þrátt fyrir að vilji þingsins hafi verið ótvíræður, hafi texta búvörulaga ekki verið breytt með nægilega skýrum hætti. Í ljósi þess að verið sé að afnema skatt af vöru, þurfi skýra lagaheimild.

Atvinnuveganefnd flytji frumvarp til að lagfæra lögin
FA hefur jafnframt fengið staðfest hjá Jóni Gunnarssyni, alþingismanni og fyrrverandi formanni atvinnuveganefndar, að hann hyggist leggja til við nefndina að hún flytji frumvarp á yfirstandandi þingi til að leiðrétta þetta og veita skýra lagaheimild, enda hafi vilji þingsins verið skýr.

„Við vonumst til að úr þessu máli verði leyst fljótt og vel,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Þetta er afar bagalegt fyrir innflytjendur, sem hafa miðað sínar áætlanir við að þessir tollkvótar tækju strax gildi. Skaðinn er svo enn meiri fyrir neytendur. Þessi breyting mun snarauka úrvalið í ostaborðum íslenskra verslana. Jafnframt lagði atvinnuveganefnd til þá lagabreytingu, sem þegar hefur tekið gildi, að tollkvótum fyrir sérosta skuli úthlutað með hlutkesti en ekki útboði, þannig að á þá leggst ekki útboðsgjald. Breytingin mun þannig jafnframt stuðla að verðlækkun og aukinni samkeppni við innlendan landbúnað.“

Ólafur átelur meðferð atvinnuvegaráðuneytisins á málinu. „Ráðuneytið hefði að sjálfsögðu átt að gera Alþingi viðvart miklu fyrr um þennan ágalla á lagabreytingunni haustið 2016, í ljósi þess að það hefur allan tímann legið fyrir hver vilji þingsins er. Við verðum að vona að Alþingi kippi þessu í liðinn með hraði.“

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning