Vill endurreisa aðstöðugjald og Bæjarútgerð

29.04.2022
Ólafur og Sanna ræða málefni atvinnulífsins í Kaffikróknum

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, segir að flokkurinn vilji ekki lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Hann vilji hins vegar endurreisa aðstöðugjaldið, sem eitt sinn var 1.3% skattur á veltu fyrirtækja. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samtali Sönnu og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti FA sem horfa má á í spilaranum hér fyrir neðan. 

Til í að endurreisa Bæjarútgerðina
Sósíalistaflokkurinn hefur verið andvígur einkavæðingu borgarfyrirtækja og lagðist þannig gegn því að skoðaðir yrðu möguleikar á sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða. „Við höfum séð að það er svo margt slæmt sem hefur gerst þegar borgin er farin að selja eignirnar sínar. Þetta er okkar grundvallarstefna, að viljum ekki eignir sem eru í félagslegri eigu séu seldar frá okkur,“ segir Sanna.

– Ég vann í Bæjarútgerðinni í gamla daga. Finnst þér að það ætti að vera bæjarútgerð? „Já.“

Aðstöðugjald bætist ofan á fasteignaskatt
Sanna segist fylgjandi því að lækka skatta á smáfyrirtæki, til dæmis tryggingagjald, og greiða fyrir stofnun smá- og samvinnufyrirtækja. Aðspurð um fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, sem eru hæstir í Reykjavík af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, segir Sanna að þá ætti ekki að lækka. „Það sem við höfum verið að tala um er aðstöðugjaldið, að það verði aftur tekið upp. Það var lagt niður fyrir um 30 árum. Þetta sé þá á veltu fyrirtækja. Við viljum gera þetta þrepaskipt, þannig að við séum að skoða þetta eftir stærð fyrirtækjanna. Við myndum vilja taka þetta upp aftur; að fyrirtækin séu í raun að greiða fyrir aðstöðu sína í samfélaginu.“

Aðspurð segist Sanna ekki vilja að aðstöðugjald komi í stað fasteignaskatts; það eigi að koma til viðbótar. 

Á móti flötum skattalækkunum
Hún segist sömuleiðis ósammála þeirri leið sem Reykjavíkurborg fór við lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði fyrir árið 2021 úr 1,65% af fasteignamati í 1,6%. „Þetta var flöt skattalækkun og talað um að hún hefði verið út af Covid. Við vitum að það hafa verið erfiðir tímar, en mér finnst að það þurfi að skoða meira stöðu allra fyrirtækja. Það er náttúrlega misjöfn staða þannig að mér finnst ekki hægt að setja bara flata skattalækkun á öll fyrirtæki án þess að vita nákvæmlega hvernig staðan er. Samfélagið er að ganga í gegnum erfiða tíma en sumir hafa það betra en aðrir.“

Kaffikrókurinn er aðgengilegur á YouTube og Spotify

 

 

 

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning