Vill FA „flytja allt inn“?

19.12.2016

Annar kaffibolli handa Ingveldi

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 17. desember 2016.

IMG_0469Sá ágæti blaðamaður Ingveldur Geirsdóttir skrifaði stuttan pistil í fimmtudagsblað Morgunblaðsins, þar sem ótrúlega mikið af rangfærslum komst fyrir í litlu plássi. Ingveldur gerði m.a. bæði Neytendasamtökunum og Félagi atvinnurekenda upp að hafa talað „gegn innlendri matvælaframleiðslu“ og þá skoðun að „miklu betra væri að flytja allt inn.“ Er þá fátt eitt talið. Formaður Neytendasamtakanna hrakti sumar rangfærslurnar í grein í Morgunblaðinu í gær og bauð blaðamanninum í kaffispjall.

Rétt er að ítreka að Félag atvinnurekenda hefur aldrei talað gegn innlendri matvælaframleiðslu og forsvarsmönnum þess dettur ekki í hug að miklu betra væri að flytja allar landbúnaðarafurðir inn. Íslenzkur landbúnaður er verzluninni mikilvæg atvinnugrein – raunar kæmist hvorug greinin af án hinnar. FA hefur margoft ítrekað þá stefnu sína að hefðbundinn íslenzkur landbúnaður njóti stuðnings, þótt félagið vilji sjá ýmsar breytingar og taki til dæmis undir tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld um að forminu á þeim stuðningi verði breytt.

Það sem FA hefur lagt áherzlu á er að landbúnaðurinn hafi samkeppni og neytendur hafi val. Það gerist með því að lækka tolla á innfluttum búvörum og fella niður tæknilegar viðskiptahindranir í vegi innflutnings. Það þarf ekki að draga í efa að slíkt yrði áskorun, en myndi jafnframt efla hefðbundinn landbúnað, líkt og þegar tollar voru lækkaðir á grænmeti og innlend grænmetisrækt tók stórt stökk fram á við í vöruþróun og gæðum. Frjáls viðskipti eru á endanum öllum til góða, jafnt verzluninni, neytendum og bændum – og þarf ekki að stilla hagsmunum þeirra upp sem andstæðum eins og blaðamaðurinn gerir.

Að því sögðu er Ingveldi Geirsdóttur boðið í annað kaffispjall, á skrifstofu Félags atvinnurekenda, svo hún geti haft það sem sannara reynist.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning