Vínberjabragð bannað?

22.04.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 21. apríl 2022.

Alls konar ávaxtabragð er vinsælt hjá fullorðnum notendum rafretta.

Forsjárhyggjan tekur á sig ýmsar myndir. Nýlega lagði heilbrigðisráðherrann fram frumvarp um nikótínvörur. Þar er að finna ákvæði, sem á að sögn að vernda börn og ungmenni fyrir neyzlu þeirra, nefnilega að banna níkótínvörur og rafrettur „sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð.“

Það er ótrúlega margt rangt við þessa tillögu. Í fyrsta lagi höfðar „nammi- og ávaxtabragð“ ekki bara til barna. Fullorðið fólk kann líka að meta nammi og ávexti og sækir í nikótínvörur með slíku bragði.

Í öðru lagi er til dæmis fjöldinn allur af áfengistegundum með „nammi- og ávaxtabragði“ án þess að nokkrum heilvita manni hafi dottið í hug að banna slíkt af því að það gæti höfðað til barna. En hver veit, kannski kemur næst frumvarp frá Willum um að banna vínberjabragð af áfengi.

Í þriðja lagi er „bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð“ alltof matskennd skilgreining á því sem bannið á að ná yfir og býður upp á geðþóttaákvarðanir embættismanna um hvað má og hvað ekki.

Síðast en ekki sízt er í lögunum, sem nú gilda um rafrettur og áformað er að fella nikótínvörur undir, harðbannað að selja og afhenda börnum vörurnar. Það ætti að vera nægileg vörn fyrir börnin, rétt eins og bannið við að selja þeim áfengi, sama hvernig það smakkast.

Svona forsjárhyggja gengur þvert gegn stjórnarskrárvörðu atvinnu- og athafnafrelsi. Það er áhyggjuefni að stjórnmálamenn skuli vera reiðubúnir að taka upp annað eins bull frá kontóristum sem langar að hafa vit fyrir fólki. Það verður að spyrna við fótum – annars er stutt í aðgerðaáætlun um að berjast gegn offitu með því að banna nammi með nammibragði.

Nýjar fréttir

Innskráning